Elvar og Grétar Ari fóru á kostum í Frakklandi

Elvar Ásgeirsson t.v. í leik með Nancy. Mynd/Nancy

Elvar Ásgeirsson lék afar vel með Nancy í kvöld þegar liðið vann afar mikilvægan sigur á Valence á útivelli í frönsku B-deildinni í handknattleik, 26:25, eftir að hafa verið þremur mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 15:12.

Elvar, sem gekk til liðs við Nancy fyrir rúmri viku skoraði þrjú mörk í kvöld en átti 11 stoðsendingar. Hann var hreinlega allt í öllu í sóknarleik liðsins.

Nancy er í þriðja til fjórða sæti deildarinnar ásamt Cherbourg með 22 stig eftir 16 umferðir. Nancy á enn tíu leiki eftir óleikna í deildinni. Pontault og Saran eru í tveimur efstu sætunum með 24 stig hvort lið.

Stórsigur hjá Grétari Ara

Grétar Ari Guðjónsson átti einnig afbragðsleik í marki Nice þegar liðið kjöldró liðsmenn Strasbourg á útivelli, 35:18. Grétar Ari stóð í marki liðsins hluta leiksins og varði 10 skot, þar af eitt vítakast. Þetta gerði samtals nærri 39% hlutfallsmarkvörslu.

Með sigrinum endurheimti Nice sjötta sæti deildarinnar sem það sá á eftir fyrr í vikunni með tapi fyrir Selestat.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -