- Auglýsing -
- Auglýsing -

EM fer fram hvað sem tautar og raular

Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Í aðdraganda heimsmeistaramótsins í handknattleik karla sem fram fór í Egyptalandi á síðasta ári skyggði covid á flest annað í aðdraganda mótsins. Landsliðin lokuðu sig flest hver af og bjuggu nánast í einangrun eða sóttkví. Þau sem það ekki gerðu fengu ærlega á baukinn.
  • Leikmenn hótuðu að hætta við að taka þátt ef einn einasta áhorfandi fengi að mæta á völlinn osfrv. Úr varð að leikið var fyrir luktum dyrum. Talsvert fjaðrafok varð þegar fáeinir Egyptar sáust í áhorfendastúkunni á einum leikjanna, víðsfjarri leikmönnum. Talað var um stjórnleysi sem var fjarri þeirri reynslu sem ég öðlaðist af veru minni í Kaíró á þessum tíma þótt vissulega sé Egyptum e.t.v. margt betur gefið en skipulag.
  • Rétt áður en flautað var til leiks á mótinu heltust tvö landslið úr lestinni og það þriðja varð að hætta keppni eftir að mótið var hafið þegar ekki fundust lengur tíu leikmenn til að taka þátt í leik. Strangar reglur giltu um leikmenn mótsins sem fóru í PCR skimun daglega allt frá því að þeir lentu á flugvellinum og þangað til þeir fóru til síns heima að keppni lokinni.
  • Nokkuð vel gekk að halda uppi sóttvörnum á leikstöðum og gististöðum. Helstu veikindin sem komu upp voru vegna matar sem einu liðanna datt í hug að panta utan úr bæ. Nokkrir leikmenn fengu reyndar steinsmugu af hótelmatnum. Það er nokkuð sem búast má því miður við hvenær sem farið er til Egyptalands, alveg óháð covid. Hrámeti skal ekki snæða.
  • Þetta var fyrir tíma delta og ómikron afbrigðanna. Bóluefni var rétt komið á markað og nær engin reynsla komin á árangur þess. Enginn hafði verið bólusettur áður en farið var til Egyptalands. Handþvottur, spritt, grímur og tveggja metra reglan var eina vörnin.
  • Án meiriháttar áfalla, nema þá helst fjárhagslegra hjá mótshöldurum, tókst að halda mótið og ljúka án stóráfalla þótt vissulega hafi mótið verið hálf kollótt, ekki síst úrslitaleikurinn, án áhorfenda.
  • Eftir viku hefst Evrópumót karla í Ungverjalandi og í Slóvakíu. Enn ríður covid húsum og er yfir og allt um kring í undirbúningi landsliðanna. Sum hafa orðið illilega fyrir barðinu á veirunni. Önnur hafa sloppið betur, alltént til þessa. Mörg hafa lært af reynslu síðasta árs og dregið sig í hlé inn í svokallaðar búbblur. Önnur virðast treysta meira á guð og lukkuna og hafa þar af leiðandi fengið að súpa á seyðinu.
  • Að þessu sinni mótmælir enginn að áhorfendur verði á leikjunum. Hugsanlega allt að 20 þúsund á sama leiknum.
  • Eins og fyrir HM í fyrra eru vangaveltur um að kannski verði EM2022 slegið af. Meira að segja Danir sem tóku að sér EM kvenna með nokkurra daga fyrirvara í árslok 2020 láta sér detta það í hug að EM karla 2022 fari ekki fram. Þó vitum við flest betur út í hvað farið verður í næstu viku en í desember 2020 þótt veira breiðist út með meiri hraða um þessar mundir en þá.
  • Alveg eins og í desember 2020 þegar leikmenn voru lokaðir inni á hóteli í þrjár vikur og máttu vart opna glugga á herbergjum sínum þá mun EM karla 2022 fara fram 13. til 30. janúar nk. í Slóvakíu og Ungverjalandi. Þrátt fyrir strangar reglur nú verður þó margt frjálsara nú en þá.
  • Handknattleikssamband Evrópu leggur allt í sölurnar til að halda mótið nú eins og áður. Alltof mikið er undir fjárhagslega til að hætt verði við. Sú staðreynd ætti að vera öllum ljós eftir að EM kvenna 2020 var haldið í Danmörku. Vangaveltur í þeim efnum eru óþarfar og rétt að einbeita sér að öðrum.

Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -