- Auglýsing -
- Auglýsing -

EMU18: Slógum þá strax út af laginu

Heimir Ríkarðsson, þjálfari, skipar sínum mönnum fyrir í leik í fyrra. Mynd/EHF
- Auglýsing -

„Við vorum afar vel búnir undir leikinn og áttum von á mjög erfiðri viðureign. Pólverjar hafa leikið æfingaleiki við Dani og Norðmenn í aðdraganda EM og unnið. Pólska liðið er gott en okkur tókst að slá það út af laginu strax í upphafi sem auðveldaði okkur eftirleikinn,“ sagði Heimir Ríkarðsson þjálfari U18 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is eftir 13 marka sigur á Póllandi í upphafsleik Íslands á Evrópumótinu í Podgorica í dag.


„Pólverjar eru mjög skiplagðir í sóknarleiknum en frekar hægir. Þess vegna var það markmið okkar frá byrjun að hleypa upp hraðanum og keyra grimmt hraða miðju. Segja má að það hafi gengið upp eins og nánast allt hjá okkur í fyrri hálfleik,“ sagði Heimir glaður í bragði eftir góðan sigur í upphafsleik mótsins.

Mynf/EHF

„Varnarleikurinn gekk loksins upp hjá okkur, markvarslan var mjög góð. Sóknarleikurinn var afbragðsgóður með fáum mistökum í fyrri hálfleik. Allt lagði þetta góðan grunn að sigrinum,“ sagði Heimir og benti á að íslenska vörnin hafi náð að brjóta sóknarleik Pólverja á bak aftur með því að vinna vel á annan tug aukakasta í hvorum hálfleik.

Mikilvægur sigur

„Sigurinn er ekki síst mikilvægur vegna þess að þetta lið hefur ekki farið í alvöru stórmót fyrr en nú. Eins skiptir miklu máli að láta vita af sér, komast á blað, stimpla sig inn,“ sagði Heimir sem þegar var farinn að leiða hugann að næsta leik á mótinu sem verður við Ungverja á morgun klukkan 14. Ungverska liðið vann sanngjarnan sigur á Þjóðverjum í dag, 35:32.

Verðum að mæta af ákefð

„Ungverjar eru með góða varnarmenn og flotta markverði. Eins keyra þeir grimmt hraðaupphlaup. Við verðum að mæta af mikilli ákefð í leikinn á morgun og ekki gefa tommu eftir, ef við ætlum okkur að taka þátt í leiknum,“ sagði Heimir Ríkarðsson þjálfari U18 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is.

Kattfrískir eftir stórsigur á Pólverjum í dag. Mynd/EHF


Eftir leikinn við Ungverja á morgun verður eins dags frí áður en kemur að síðasta leiknum í riðlakeppninni við Þýskaland á sunnudaginn. Viðureign Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 14 og verður í textalýsingu hjá handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -