- Auglýsing -
- Auglýsing -

Engin harmónía í sóknarleiknum

Theodór Sigurbjörnsson hefur framlengt samning við ÍBV til næstu tveggja ára. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Við slógum okkur sjálfa út af laginu strax í upphaf og vorum bara andlega flatir í leik okkar frá byrjun. Sóknarleikurinn var snubbóttur. Ekkert flot var á boltanum, menn mættu ekki í eyðurnar. Það var bara alls engin harmónía í sóknarleiknum,“ sagði Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara ÍBV, við handbolta.is eftir að lið hans steinlá fyrir Haukum, 30:23, á Ásvöllum í kvöld í Olísdeild karla í handknattleik, annarri umferð.

„Haukar stóðu vörnina vel og lásu okkur eins og opna bók. Þegar við bættist að ekki var neitt frumkvæði að finna þá var ekki við góðu að búast,“ sagði Kristinn.

ÍBV reyndi að hressa upp á leik sinn með því að fara í sjö manna sóknarleik án þess að það bæri mikinn árangur. Kristinn sagði það svo sem ekki vera skrítið að sú tilraun hafi ekki tekist. „Það segir sögu okkar að einhverju leyti í þessum leikjum að við höfum ekkert æft sjö manna sóknarleik af neinu viti. Að grípa til þessa ráðs segir kannski einhverja sögu hvað ráðaleysi okkar var orðið algjört.  Við áttum bara í miklum erfiðleikum.

Þessi leikur  er áminning fyrir okkur um hversu langt við eigum í land á ýmsum sviðum. Það er mikil vinna eftir við að móta þetta lið og gera það tilbúið undir stærri átök. Við vorum einfaldlega ekki nógu góðir, sérstaklega í sóknarleiknum. Eitt og annað var í lagi í varnarleiknum.

Fyrst og fremst verðum við að laga það sem er að í okkar leik,“ sagði Kristinn Guðmundsson, annar þjálfari karlaliðs ÍBV.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -