- Auglýsing -
- Auglýsing -

Enginn hefur sagt nei takk vegna ótta við að smitast

Eins og endranær þá eru allir sem leitað hefur verið til boðnir og búnir til að leika með landsliðinu í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Enginn handknattleiksmaður hefur beðist undan því að koma til móts við íslenska landsliðið á Evrópumeistaramótinu af ótta við að smitast af kórónuveirunni.


„Þeir leikmenn sem við höfum haft samband við hafa bara sagt strax já. Þeir hafa fengið frí í vinnu eða frá námi með skömmum fyrirvara og drifið sig út til okkar. Vissulega gera menn sér grein fyrir smithættunni en vilja gera allt sem í þeirra valdi stendur til að leggjast á árarnar með okkur,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ í samtali við handbolta.is í dag.


Tveir leikmenn komu til Ungverjalands í nótt, Darri Aronsson og Þráinn Orri Jónsson. Magnús Óli Magnússon og Vignir Stefánsson mættu til leiks í fyrradag. Róbert segir að Darri og Þráinn Orri hafi verið boðaðir með mjög skömmum fyrirvara og þannig hægt að koma þeim með beinu flugi til Búdapest.


„Við erum líka með nokkra menn í startholunum úr 35 manna hópnum sem vita að til þeirra geti verið leitað með skömmum fyrirvara ef þörf verður á. Þeir vita einnig af hættunni á að smitast og hafa ekki sagt okkur annað en við getum leitað til þeirra hvenær sem þörf verður á,“ sagði Róbert.

Fimm dögum lýkur á morgun

Þremenningarnir sem smituðust fyrst í íslenska hópnum, Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ólafur Andrés Guðmundsson hafa lokið fimm daga einangrun á morgun. Róbert Geir sagði alltof snemmt að segja til um hvort þeir fái leikheimild á morgun. Fimm daga einangrun ein og sér nægi ekki til að losna heldur verði niðurstaða skimunar að vera hreint og klárt neikvæð eða þá jákvæð að því tilskyldu að CT-hlutfall í sýni sé yfir 30.


„Ég vil ekki fara út neinar fabúleringar hvenær og hvort menn losna úr einangrun á morgun eða ekki. Niðurstöður úr skimunum verða að leiða það í ljós hvenær menn losna og fá leikheimild. Við reynum eftir fremst megni að hafa vaðið fyrir neðan okkur. Eitt er að vilja, annað er að fá,“ sagði Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ í samtali við handbolta.is dag.


Þeir sem dvelja í einangrun í íslenska hópnum hafa farið í PCR próf hvern einasta dag síðan þeir voru greindir með smit.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -