- Auglýsing -
- Auglýsing -

Er formlega orðinn leikmaður dönsku meistaranna

Aron Pálmarsson með keppnispeysu Aalborg í höndunum. Mynd/Aalborg Håndbold
- Auglýsing -

Aron Pálmarsson er formlega orðinn leikmaður dönsku meistaranna Aalborg Håndbold. Félagaskipti hans frá Barcelona til Álaborgarliðsins hafa verið stimpluð og samþykkt af viðkomandi sérsamböndum og er það staðfest með tilkynningu á félagaskiptasíðu Handknattleikssambands Íslands.

Skipti Arons frá Evrópumeisturum Barcelona til silfurliðs Meistaradeildarinnar, Aalborg Håndbold, er ein þau stærstu á félagsskiptamarkaðnum í Evrópu í sumar.


Eins eru félagaskipti Elvars Arnar Jónssonar frá Skjern í Danmörk til MT Melsungen í Þýskalandi klöppuð og klár og allri pappírsvinnu lokið.
Sömu sögu má segja um komu Hildigunnar Einarsdóttur til Vals frá Bayer Leverkusen í Þýskalandi.


Sænska handknattleikskonan Lina Cardell sem lék með ÍBV í Olísdeildinni á síðasta tímabili sem lánsmaður hefur fengið félagaskipti heim til Sävehof á nýjan leik þótt ekki sé lokum fyrir það skotið að hún komi aftur til Vestmannaeyja.


Einnig eru skipti markvarðarins Martin Nágy frá Val til Gummersbach í Þýskalandi stimpluð og Ungverjinn mættur í slaginn í Þýskalandi þar sem undirbúningur fyrir næsta keppnistímabil er hafinn í herbúðum Guðjóns Vals Sigurðssonar þjálfara liðsins.

Unglingalandsliðskonan Katrín Tinna Jensdóttir hefur einnig fengið skipti sín frá Stjörnunni til Volda í Noregi samþykkt.


Nánar er hægt að skoða nýjustu færslur á félagaskiptasíðu HSÍ.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -