Er formlega orðinn leikmaður dönsku meistaranna

Aron Pálmarsson með keppnispeysu Aalborg í höndunum. Mynd/Aalborg Håndbold

Aron Pálmarsson er formlega orðinn leikmaður dönsku meistaranna Aalborg Håndbold. Félagaskipti hans frá Barcelona til Álaborgarliðsins hafa verið stimpluð og samþykkt af viðkomandi sérsamböndum og er það staðfest með tilkynningu á félagaskiptasíðu Handknattleikssambands Íslands.

Skipti Arons frá Evrópumeisturum Barcelona til silfurliðs Meistaradeildarinnar, Aalborg Håndbold, er ein þau stærstu á félagsskiptamarkaðnum í Evrópu í sumar.


Eins eru félagaskipti Elvars Arnar Jónssonar frá Skjern í Danmörk til MT Melsungen í Þýskalandi klöppuð og klár og allri pappírsvinnu lokið.
Sömu sögu má segja um komu Hildigunnar Einarsdóttur til Vals frá Bayer Leverkusen í Þýskalandi.


Sænska handknattleikskonan Lina Cardell sem lék með ÍBV í Olísdeildinni á síðasta tímabili sem lánsmaður hefur fengið félagaskipti heim til Sävehof á nýjan leik þótt ekki sé lokum fyrir það skotið að hún komi aftur til Vestmannaeyja.


Einnig eru skipti markvarðarins Martin Nágy frá Val til Gummersbach í Þýskalandi stimpluð og Ungverjinn mættur í slaginn í Þýskalandi þar sem undirbúningur fyrir næsta keppnistímabil er hafinn í herbúðum Guðjóns Vals Sigurðssonar þjálfara liðsins.

Unglingalandsliðskonan Katrín Tinna Jensdóttir hefur einnig fengið skipti sín frá Stjörnunni til Volda í Noregi samþykkt.


Nánar er hægt að skoða nýjustu færslur á félagaskiptasíðu HSÍ.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -