- Auglýsing -
- Auglýsing -

Er svo ánægður með að hafa klárað þetta

Ýmir Örn Gíslason fagnar sigrinum í kvöld. Fjær er Björgvin Páll Gústavsson markvörður. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég er svo stoltur af okkur sem liðsheild að hafa unnið leikinn. Hann var mjög erfiður, hraðinn var mikill og reyndi verulega á alla. Vissulega stóð þetta tæpt en núna er mér alveg sama. Við unnum leikinn og það skiptir öllu máli,“ sagði Ýmir Örn Gíslason varnarjaxl og línumaður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is eftir sigur íslenska landsliðsins, 29:28, á hollenska landsliðinu í annarri umferð B-riðils Evrópumótsins í handknattleik karla í MVM Dome í Búdapest.

„Stigin tvö er það sem skiptir máli og þau eru jafn verðmæt hvort sem unnið er með einu marki eða tíu. Við fengum frábæran stuðning frá fólkinu í stúkunni sem við þökkum kærlega fyrir. Áhorfendurnir komu okkur í gegnum þetta. Þeir eru stórkostlegir,“ sagði Ýmir Örn sem viðurkenndi að það hafi farið um hann síðustu hálfu mínútuna þegar Hollendingar freistuðu þess að vinna boltann af íslenska liðinu.


„Við gerðum leikinn spennandi en björguðum okkur fyrir horn. Ég er svo ánægður með að hafa klárað þetta. Ég sofna sáttur í nótt hversu margt sem klukkan verður orðin,“ sagði Ýmir.

Ýmir Örn bætti við að íslenska liðið hafi haldið sínu skipulagi frá upphafi til enda og aldrei farið á taugum þótt ekki hafi allir hlutir gengið upp. „Ég er stoltur af liðinu og sigrinum,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í MVM Dome Arena í kvöld.

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -