Erfitt að átta sig á styrk þeirra

Rut Arnfjörð Jónsdóttir, fyrirliði landsliðsins. Mynd/Mummi Lú

„Við þekkjum ekki mikið til tyrkneska landsliðsins. Ennþá ríkir aðeins meiri óvissa út í hvað við erum fara en við verðum búnar að kynna okkur leik Tyrkja vel þegar á hólminn verður komið,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, þegar handbolti.is hitti hana að máli rétt áður en íslenska landsliðið hélt af landi brott til leiks við tyrkneska landsliðið í undankeppni Evrópumótsins. Leikurinn fer fram í Kastamonu í norðurhluta Tyrklands og hefst klukkan 16 á morgun.


„Margir leikmenn tyrkneska landsliðsins leika með liði Kastamonu sem hefur leikið í Meistaradeild kvenna í handknattleik í vetur en nákvæmlega hversu sterkir leikmennirnir er ekki gott að segja,“ bætti Rut við enda er talsvert um liðsstyrk frá austurhluta Evrópu í herbúðum Kastamonu-liðsins.

Bara skemmtilegra

Reiknað er með að fjöldi áhorfenda verði á leiknum vegna þess að mikill áhugi er fyrir hendi á handknattleik í Kastamonu. Rut óttast ekki að hávaði og læti skjóti leikmönnum íslenska landsliðsins skelk í bringu.

Rut Arnfjörð reynir að lauma boltanum til Hildigunnar Einarsdóttur í viðureign við Serba í undankeppninni í haust. Mynd/Mummi Lú


„Leikurinn verður spennandi og mjög erfiður. Ég vona að það verði góð stemning á leiknum. Mér finnst gaman að leika þar sem er svolítill hávaði og læt enda tek ég minnst eftir hverjir eru á áhorfendapöllunum, bara að það sé fólk og góð stemning,“ segir Rut sem hefur mikla reynslu eftir að hafa leikið með dönskum félagsliðum í Evrópukeppni um árabil, m.a. í Meistaradeild Evrópu.

Úrslit til þessa í 6. riðli undankeppni EM:
Serbía - Tyrkland 36:27.
Svíþjóð - Ísland 30:17.
Tyrkland - Svíþjóð 23:31.
Ísland - Serbía 23:21.
Serbar og Svíar mætast 3. og 5. mars.
Síðustu leikir riðlakeppninnar fara fram í vikunni eftir páska. Tvö efstu liðin í riðlinum tryggja sér keppnisrétt á EM sem fram fer í desember í þremur löndum; Slóveníu, Svartfjallalandi og Norður Makedóníu.


Rut segir stíganda vera í leik íslenska landsliðsins. „Tvö síðustu verkefni hafa verið frábær og skilað okkur mjög miklu. Yngri leikmenn eru að komast í stærri hlutverk og vonandi verður framhald á,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins sem leikur sinn 105. landsleiki í Kastamonu á morgun.

Flautað verður til leiks klukkan 16 og verður fylgst með í stöðu- og textauppfærslu á handbolti.is.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -