Erum fyrsta liðið sem stendur af sér áhlaup KA

Sebastian Alexandersson, þjálfaði Fram á síðasta tímabili. Hann er þjálfari HK. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson.

„Ég er ótrúlega stoltur af strákunum. Við undirbjuggum okkur mjög vel fyrir leikinn því það er ekki heiglum hent að halda uppi stemningu í 60 mínútur gegn KA-liðinu,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari karlaliðs Fram, eftir góðan sigur á KA í Olísdeild karla í handknattleik í Framhúsinu í kvöld, 26:22. KA hafði ekki tapað í sjö leikjum í röð þegar það mætti lærisveinum Sebastians.


„Ég held að þetta sé í fyrsta sinn á leiktíðinni sem liði tekst að stöðva áhlaup KA-liðsins. Það hjálpaði okkur vissulega mikið að Lárus [Helgi Ólafsson] átti nokkrar toppmarkvörslur þegar mest reið á. Annars hefði KA kannski náð að jafna metin og komast inn í leikinn.


KA er það lið sem hefur leikið hvað best síðasta mánuðinn. Til viðbótar erum við enn taplausir á heimavelli, sem við leggjum mikinn metnað í.“


Sebastian sagði að varnarleikurinn og markvarslan hafi verið það besta í leik Fram-liðsins að þessu sinni. Ægir Hrafn Jónsson er frá eftir að hafa verið sprautaður við meiðslum í öxl í vikunni og heljarmennið Þorvaldur Tryggvason var veikur í gær og ekki með fulla orku í leikinn í dag af þeim sökum.

„Samt náum við að leika frábæran varnarleik og skora skora 26 mörk þrátt fyrir að Vilhelm Poulsen hafi alls ekki náð sér á strik. Ég er ánægður með þolinmæðina í strákunum í sóknarleiknum því það er mikið þolinmæðisverk að brjóta varnarleik KA á bak aftur auk þess sem liðið hefur mjög góðan markvörð,“ sagði Sebastian.

Endurgreiddi skuldina

„Lárus Helgi taldi sig standa í skuld við liðið eftir leikinn við Gróttu. Hann borgaði svo sannarlega skuldina í dag og vel það,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir sigurinn í Safamýri.

Staðan í Olísdeild karla.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -