- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erum mjög peppaðir

Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við höfum beðið í heilt ár eftir að standa okkur betur en við gerðum á síðasta stórmóti. Nú er stundin að renna upp og fyrsti leikur á EM er innan seilingar. Við viljum bæta fyrir síðasta mót og erum mjög peppaðir,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik, áður en hann í gær skokkaði inn á æfingu í MVM Dome, íþróttahöllinni glæsilegu í Búdapest þar sem íslenska landsliðið mætir Portúgal í upphafsleik sínum á Evrópumótinu í kvöld klukkan 19.30.


„Útlitið hjá okkur er mikið betra en í fyrra. Nú eru allir leikmenn heilir heilsu og klárir í slaginn sem var ekki raunin í fyrra. Ég hef því mjög góða tilfinningu fyrir þessu móti,“ sagði Sigvaldi Björn.

Portúgalska landsliðið hefur reynst íslenska landsliðinu erfitt á síðustu árum. Sigvaldi Björn þekkir vel til margra leikmanna portúgalska liðsins, bæði eftir nokkra landsleiki á síðustu árum og hefur hann mætt sumum þeirra í leikjum Kielce og Porto í Meistaradeildinni.

„Eitt helsta vopn portúgalska liðsins er að leika með sjö menn í sókn, sjö á sex. Við höfum farið yfir hvaða ráðum er hægt að beita og teljum okkur hafa svörin að þessu sinni,“ sagði Sigvaldi og bætti við.


„Við ætlum okkur að vinna leikinn. Það eitt kemst að hjá okkur um þessar mundir.“

Hefur náð góðum bata

Sigvaldi Björn hefur síðustu vikur glímt við meiðsli í hásin og tók m.a. ekki þátt í æfingabúðum landsliðsins heima á Íslandi í byrjun nóvember. Hann segist hafa náð góðum bata upp á síðkastið eftir að hafa verið í öruggum höndum lækna og sjúkraþjálfara íslenska landsliðsins. Ekki veitir af því ljóst er að mikið álag verður á Sigvalda Birni á EM. Hann er eini ekta hægri hornamaðurinn í landsliðshópnum að þessu sinni en mun fá stuðning frá Teiti Erni Einarssyni og Viggó Kristjánssyni.

Spenntur fyrir stærra hlutverki

„Ég er bara spenntur fyrir að fá enn stærra hlutverk í landsliðinu. Ég hef beðið eftir því og tek þess vegna áskoruninni fegins hendi. Ég hef góða tilfinningu fyrir mótinu auk þess sem ég hef náð góðum bata,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -