- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Erum undirhundar í þessum leik“

Lið Neistans í Þórshöfn sem lék til úrslita í bikarkeppninni á síðasta keppnistímabili. Arnar Gunnarsson þjálfari er annar frá hægri í efri röð. Mynd/FB-síða Neistans
- Auglýsing -

„Við erum undirhundar í þessum leik en við höfum átt fína leiki gegn þeim í vetur. Mitt mat er að við eigum alveg að getað unnið þá,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Neistans í Færeyjum en lið hans mætir ríkjandi bikarmeisturum, H71, í úrslitaleik bikarkeppninnar í karlaflokki í kvöld í Þórshöfn.


H71 er landsmeistari síðustu fjögurra ára og varð einnig bikarmeistari á síðustu leiktíð. H71 rétt slapp í úrslitin að þessu sinni á fleiri mörkum skoruðum á útivelli en í undanúrslitum bikarkeppninnar í Færeyjum er leikið heima og að heiman og samanlögð úrslit gilda. Reyndar er allt annað skipulag á bikarkeppninni í Færeyjum en við þekkjum heima á Íslandi og e.t.v. nokkuð sem vel mætti gefa gaum hér á landi.


Arnar og félagar í Neistanum lögðu KÍF frá Kollafirði í undanúrslitum í báðum viðureignum. Með KÍF leikur Hörður Fannar Sigþórsson sem lengi lék með Akureyri handboltafélagi og Þór Akureyri.
Neistin hefur sjö sinnum orðið bikarmeistari en H71 fjórum sinnum og það á síðustu fimm árum.

Vaxið við hverja raun


„Við höfum leikið vel upp á síðkastið, vaxið við hverja raun. Hinsvegar er allt annað þegar komið er í úrslitaleik eins og þennan. Þetta er bara einn leikur. Flestir leikmenn mínir hafa litla reynslu að hreinum úrslitaleikjum og þess vegna veit maður ekki hvernig þeir bregðast við undir pressu,“ sagði Arnar þegar handbolti.is heyrði í honum í gær.


„Neistin vann bikarinn fyrir tveimur árum en fæstir þeirra leikmanna sem eru í liðinu núna voru með þá eða voru í stórum hlutverkum,“ segir Arnar ennfremur.


Leyfilegt er að selja 100 manns aðgang að úrslitaleikjunum í karla,- og kvennaflokki.

Mikil stemning innan Neistans


Mikil stemning ríkir á meðal Neistafólks fyrir helginni því auk karlaliðsins er kvennaliðið einnig í úrslitum og það nokkuð óvænt eftir að hafa lagt Kyndil í undanúrslitum. Kvennalið Neistans mætir einnig liði H71 í úrslitum. Til viðbótar leika fjögur yngri flokka lið Neistans einnig til úrslita í bikarkeppninni um helgina. Fyrstu úrslitaleikir yngri flokka fóru fram í gærkvöld og standa yfir í dag og einnig á morgun.


Úrslitaleikur karla milli Neistans og H71 hefst klukkan 19.30 og verður í beinni útsendingu á Kringvarpinu. Ekki er útilokað að mögulegt verði að horfa á útsendinguna hér á landi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -