- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eyjamenn iða í skinninu

Stuðningsmannasveit ÍBV mun verða fjölmenn í Origohöllinni á fimmtudaginn. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Almenningur í Eyjum iðar í skinninu eftir að flautað verði til leiks. Hvarvetna sem maður kemur er verið að velta leiknum fyrir sér,“ segir Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar karla í samtali við handbolta.is. Tveir sólarhringar eru þangað til Valur og ÍBV mætast í fyrsta sinn í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í Origohöllinni.


Eyjamenn efna til hópferðar á leikinn sem hefst klukkan 19.30 á fimmtudaginn. Hafa þegar nokkrir tugir manna pantað sæti. Reiknað er með vaxandi eftirspurn eftir því sem nær dregur leiknum. Herjólfur hefur seinkað brottför frá Landeyjahöfn til þess að íbúar í Vestmannaeyjum komist aftur heim um kvöldið, þótt seint verði.

Hvítt haf stuðningsmanna

„Áhuginn er gríðarlegur. Við sjáum fram á að verða með fjölmenna sveit í Origohöllinni. Okkar markmið er verða með hvítt haf stuðningsmanna á leiknum,“ sagði Vilmar Þór ennfremur.

Bikartreyjan rennur út

Handknattleiksdeild ÍBV hefur til sölu hina sívinsælu 91-bikartreyju sem fyrst var seld fyrir úrslitaleik Coca Cola-bikarsins 2020. Treyjurnar renna út eins og heitar lummur með hunangi sem er hreint ótrúlegt miðað við þann fjölda sem selst hefur á síðustu tveimur árum, að sögn framkvæmdastjórans.

Hefur engar áhyggjur ennþá

„Fyrir utan alla þá sem ætla með í hópferð okkar á leikinn veit ég um marga sem fara á eigin vegum. Eins stefna margir Eyjamenn sem eru á höfuðborgarsvæðinu á leikinn,“ sagði Vilmar Þór sem ennþá hefur ekki áhyggjur af því að uppselt verði á fyrstu viðureign Vals og ÍBV líkt og verið hefur á úrslitaleikina í körfuknattleik. Hvað svo sem síðar kann að verða.

Fullt hús á sunnudaginn

Annar leikur ÍBV og Vals verður í Vestmannaeyjum á sunnudaginn klukkan 16 og hvernig sem allt verkast í fyrsta leiknum er fullvíst að það verður fullt út úr dyrum á íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum.


Stuðningsmenn ÍBV létu sitt ekki eftir liggja í leikjunum á útivelli gegn Stjörnunni í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar né gegn Haukum í undanúrslitum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -