- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eyjamenn smelltu sér upp að hlið Valsmanna

Patrekur Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

ÍBV komst upp að hlið Vals með 14 stig í annað til þriðja sæti Olísdeildar karla í handknattleik með fjögurra marka sigri á Stjörnunni, 32:28, í TM-höllinni í kvöld í viðureign úr annarri umferð sem fresta varð í haust. Stjarnan var marki yfir í hálfleik, 16:15. Liðið er í fimmta sæti með 12 stig að loknum níu leikjum eins og liðin fyrir ofan að toppliði Hauka undanskildu sem hefur náð saman 16 stigum úr 10 leikjum.


Eftir daufan varnarleik beggja liða í fyrri hálfleik þá náðu Eyjamenn vopnum sínum fljótlega í síðari hálfleik. Varnarleikur liðsins var góður og eftir að Björn Viðar Björnsson varði nokkur skot þá komust leikmenn ÍBV á bragðið. Þeir náðu forskoti þegar kom inn á annan þriðjung leiktímans í síðari hálfleik og létu forskot sitt ekki af hendi eftir það. Vængbrotið lið Stjörnunnar átti erfitt uppdráttar. Eyjamenn lokuðu helstu leiðum sem varð til þess að Stjarnan var skrefi á eftir til leiksloka.

Stjarnan skoraði aðeins 12 mörk í síðari hálfleik sem segir sitt hvernig þeim gekk á móti baráttuglöðum leikmönnum ÍBV sem náðu að sýna sitt rétt andlit.

Margir fjarverandi

Talsverð afföll er í liði Stjörnunnar um þessar mundir. Auk Tandra Más Konráðssonar, sem hefur verið lengi frá og verður vart með fyrr en á nýju ári, þá voru Dagur Gautason, Adam Thorstensen, Þórður Tandri Ágústsson, Björgvin Þór Hólmgeirssson ekki með að þessu sinni. Þá fékk Leó Snær Pétursson högg í fyrri hálfleik. Brynjar Hólm Grétarsson og Pétur Árni Hauksson er mættir til leiks aftur eftir nokkra fjarveru.

Sigtryggur Daði Rúnarsson var ekki með ÍBV í kvöld vegna meiðsla á fingri sem hann varð fyrir í viðureign við Selfoss á sunnudaginn. Dagur Arnarsson var með í kvöld og var öflugur í síðari hálfleik. Ungu piltarnir í Eyjaliðinu voru góðir og vaxa með hverri raun.


Mörk Stjörnunnar: Hafþór Már Vignisson 7, Sverrir Eyjólfsson 6, Starri Friðriksson 4/2, Pétur Árni Hauksson 3, Hrannar Bragi Eyjólfsson 2, Hjálmtýr Alfreðsso 2, Leó Snær Pétursson 2, Gunnar Steinn Jónsson 2.
Varin skot: Arnór Freyr Stefánsson 7/2, 20,6%.

Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 6, Sveinn Jose Rivera 4, Dagur Arnarsson 4, Dánjal Ragnarsson 4, Andrés Marel Sigurðsson 3, Theodór Sigurbjörnsson 3/1, Gabriel Martinez Róbertsson 2, Arnór Viðarsson 2, Ásgeir Snær Vignisson 1, Elmar Erlingsson 1, Kári Kristján Kristjánsson 1, Petar Jokanovic 1
Varin skot: Björn Viðar Björnsson 7, 30,4% – Petar Jokanovic 1, 7,7.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild karla er að finna hér.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -