- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fær fyrrverandi lærisveina í heimsókn

Gunnar Hrafn Pálsson, einn nýliða Stjörnunnar, og Patrekur Jóhannesson, þjálfari. Ljósmynd/Stjarnan
- Auglýsing -

Óhætt er að segja að keppni í Olísdeild karla hafi farið vel af stað í gærkvöld með þremur leikjum. Af þeim voru tveir afar spennandi þar sem úrslit réðust ekki fyrr en á síðustu sekúndum. Nýliðarnir, Grótta og Þór Akureyri, sendu skýr skilaboð til annarra liða um að þau beri að taka alvarlega.

Grótta var nærri því að fá a.m.k. eitt stig úr viðureign sinni við Hauka. Sömu sögu er að segja af heimsókn Þórsara til Aftureldingarmanna í Mosfellsbæ. Í báðum viðureignum sluppu Haukar og Aftureldingarmenn naumlega fyrir horn. Haukar unnu 20:19, en Afturelding 24:22.

Í kvöld heldur fjörið áfram með tveimur leikjum. Í KA-heimilinu mætast heimamenn í KA og liðsmenn Fram klukkan 19.30 og klukkustund síðar eigast við Stjarnan og Selfoss í TM-höllinni í Garðabæ. Þar mætir Patrekur Jóhannesson sínum gömlu lærisveinum í fyrsta sinn í leik á Íslandsmóti eftir að Selfoss-liðið varð Íslandsmeistari undir hans stjórn vorið 2019.

Ólafur Gústafsson er nýr í herbúðum KA. Mynd/KA

Nýir menn hjá KA

KA-liðið hefur styrktst frá síðustu leiktíð en m.a. gekk Ólafur Gústafsson, landsliðsmaður, til liðs við liðið og einnig Árni Bragi Eyjólfsson, fyrrverandi leikmaður Aftureldingar. Báðir voru þeir í herbúðum danska úrvalsdeildarliðsins KIF Kolding á síðasta tímabili.  Einnig bættist færeyski landsliðsmarkvörðurinn Nicholas Satchwell í hópinn fyrir norðan.

Vilhelm Poulsen og Rógvi Dal Christiansen – Mynd/Fram

Breytingar hjá Fram

Framarar kræktu í tvo Færeyinga fyrir tímabilið. Rógvi Dal Christiansen kom frá Kyndli og Vilhelm Pulsen frá H71 sem Einar Jónsson, fyrrverandi þjálfari Fram, þjálfaði með góðum árangri á síðasta keppnistímabili. Hinn stórefnilegi Andri Már Rúnarsson gekk einnig til liðs við Fram eftir tvö ár í herbúðum Stjörnunnar. Breki Dagsson sem hefur alla tíð leikið með Fjölni er einnig kominn í hópinn hjá Fram og fetar þar með í fótspor föður síns, Dags Jónassonar, sem lék með Fram á árum áður.

Í heildina má segja að talsverð uppstokkun hafi átti sér stað hjá Fram-liðinu í sumar eftir að Sebastia Alexandersson tók við þjálfun þess. Sebastian var áður þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar.

Uppstokkun hjá Stjörnunni

Hafi einhverstaðar verið hressileg uppstokkun meðal liða Olísdeildar karla þá er það í herbúðum Stjörnunnar. Ellefu leikmenn hafa komið til liðs við Stjörnuna að sögn Patreks Jóhannessonar þjálfara sem tók við starfinu í sumar. Á móti kemur að ekki færri en 12 leikmenn réru á önnur mið. Patrekur ætlar að byggja alveg nýtt lið í Garðabæ. Meðal þeirra sem eru komnir eru Björgvin Hólmgeirsson, stórskytta úr ÍR, hornamaðurinn efnilegi Dagur Gautason frá KA, örvhentu skytturnar Pétur Árni Hauksson frá HK og Hafþór Vignisson frá ÍR.  Einnig Gunnar Hrafn Pálsson, einkar efnilegur leikmaður og markvörðurinn Adam Thorstensen.

Halldór Jóhann Sigfússon nýr þjálfari og Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, t.h. Mynd/Selfoss

Þjálfaraskipti á Selfossi

Selfoss-liðið, sem einnig er undir stjórn nýs þjálfara frá síðustu leiktíð, Halldórs Jóhanns Sigfússonar, krækti í atvinnumanninn og Akureyringinn Guðmund Hólmar Helgason, þegar hann flutti heim eftir fjögurra ára veru í Frakklandi og í Austurríki. Einnig bættist Litháinn Vilius Rasimas í hópinn en þar er um að ræða markvörð sem síðast var á mála hjá pólska liðinu Pulawy. Annars byggir Selfoss-liðið sem fyrr á heimaöldum leikmönnum.

Leikir kvöldsins og á morgun í Olísdeild karla:

Föstudagur kl. 19.30 KA – Fram – KA-heimili.

Föstudagur kl. 20.30 Stjarnan – Selfoss – TM-höllin.

Laugardagur kl. 18.00 FH – Valur – Kaplakriki.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -