- Auglýsing -
- Auglýsing -

Færanýtingin var ekki viðunandi

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Mynd/Björgvin Franz
- Auglýsing -

„Mér fannst HK liðið flott að þessu sinni. Hinsvegar var ég ekki ánægður með leik minna manna. Að minnsta kosti tíu dauðafæri fóru forgörðum, tæknifeilarnir voru margir. Þannig að það var eitt og annað sem ég var ekki ánægður með þegar upp er staðið þótt við höfum unnið öruggan sigur þegar upp var staðið,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals, eftir sjö marka sigur á HK, 32:25, í Olísdeildinni í gærkvöld.


Valur er þar með í efsta sæti deildarinnar ásamt ÍBV með sex stig að loknum þremur leikjum. Valur og ÍBV mætast í Origohöllinni á sunnudaginn klukkan 16.

HK-liðið sem er án stiga eftir þrjár viðureignir var með yfirhöndina lengst af í fyrri hálfleik í viðureigninni í gær og hóf einnig seinni hálfleik af krafti áður en leikmenn Vals náðu fullri stjórn á leiknum þegar líða tók á leiktímann.


Snorri Steinn nýtti leikinn í gærkvöld til þess að gefa yngri mönnum sviðið. Bræðurnir Benedikt Gunnar og Arnór Snær Óskarssynir voru í stórum hlutverkum. Eins var Einar Þorsteinn Ólafsson í stærra hlutverki í sóknarleikum en stundum áður.


„Magnús Óli er aðeins laskaður enda hefur mikið mætt á honum síðustu vikur og mun gera áfram meðan Tryggvi Garðar og Róbert Aron verða frá keppni. Spilið gekk annars vel hjá okkur að þessu sinni, það var frekar færanýtingin sem var ekki viðunandi.


Arnór Snær hefur unnið fyrir því að fá heilan leik,“ sagði Snorri Steinn spurður hvort hann hafi viljandi látið reynslumenn eins og Magnús Óla Magnússon og Agnar Smára Jónsson sitja allan leikinn á bekknum.


„Ég er með breidd í hópnum og tel mig þar af leiðandi geta gefið þeim sem oft fá minni tækifæri möguleika á að leika heilan leik. Breiddin er ekki bara til þess að sitja á bekknum. Við höfum á undanförnum vikum leikið fleiri leiki en flest önnur lið og þótt reynslumenn sitji á bekknum einn og einn leik þá á það ekki að koma að sök,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við handbolta.is í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -