Færeyingar standa í ströngu – Kósóvóbúar öngluðu í stig

Drilon Tahirukaj, bláklæddur, skoraði þrjú mörk fyrir landslið Kósóvó gegn Rúmenum í gær. Mynd/EPA

Fjórir færeyskir handknattleiksmenn sem leika hér á landi voru í eldlínunni í gær þegar færeyska landsliðið mætti landsliði Úkraínu í Kænugarði í 3. riðli undankeppni EM karla. Færeyingar veittu Úkraínumönnum hörkukeppni en máttu að lokum sætta sig við fjögurra marka tap, 25:21, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 15:13.


Allan Norðberg úr KA og Vilhelm Poulsen úr Fram skoruðu eitt mark hvor fyrir færeyska landsliðið. Framarinn, Rögvi Dal Christiansen, skoraði ekki að þessu sinni Nicholas Satchwell varði sjö skot í marki færeyska landsliðsins, 22% hlutfallsmarkvarsla.

Hér má sjá eina mark Norðberg í leiknum.


Þetta var fyrsti leikur Færeyinga í undankeppninni en leikjum þeirra sem fram áttu að fara í nóvember og í byrjun janúar var frestað vegna kórónuveirunnar. Færeyingar mæta Tékkum í Brno í Tékklandi á morgun og Úkraínumönnum á nýjan leik í Þórshöfn á sunnudag. Vegna veirunnar þá fékk færeyska landsliðið undanþágu hjá Handknattleikssambandi Evrópu EHF, til að leika heimaleiki sína í Höllinni á Hálsi. Færeyska landsliðið stendur þar af leiðandi í ströngu þessa dagana.


Rússar lögði Tékka í Rússlandi í gær í hörkuleik, 28:27, og hafa fimm stig að loknum þremur leikjum. Úkraínumenn hafa önglað saman þremur stigum í þremur viðureignum. Tékkar og Færeyingar eru án stiga.

Baráttuglaðir Kósóvóbúar

Kósóvóbúar komu á óvart þegar þeir náðu jafntefli við Rúmena, 23:23, í Prishtina. Kósóvóbúar voru fimm mörkum undir í hálfleik, 14:9. Þeir hertu heldur betur róðurinn í síðari hálfleik með glæsilegum árangri og voru m.a. yfir, 23:22, þegar skammt var til leiksloka. Þetta eru fyrstu stig Kósóva í undankeppninni að þessu sinni en áður höfðu þeir steinlegið á heimavelli fyrir Svíum, 30:16, og fyrir Svartfellingum, 32:25, í Podgorica í Svartfjallalandi.

Kósóvar voru fyrst með í undankeppni EM fyrir lokakeppnina 2020. Í þeirri undankeppni lögðu þeir Ísraelsmenn einu sinni og náðu jafntefli við Pólverja.


Svíar eru með fullt hús stiga, sex stig, í áttunda riðli undankeppninni. Rúmenar eru með þrjú stig, Svartfellingar tvö og Kósóvar eitt.

Í 6. riðli unnu Hvít-Rússar öruggan sigur á Ítölum, 37:32, í Minsk. Norðmenn og Hvít-Rússar eru efstir í riðlinum með 4 stig hvorir eftir þrjá leiki og eru á góðri leið með að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM í janúar á næsta ári. Ítalir eru með tvö stig að loknum fjórum leikjum og Lettar hafa tvö stig eftir tvo leiki.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -