- Auglýsing -

Færri komast á EM-leikina i Slóvakíu – óbreytt í Ungverjalandi

Takmarkaður fjöldi áhorfenda verður á leikjum EM í Slóvakíu en engar takmarkanir í Ungverjalandi það sem íslenska landsliðið leikur sína leiki. Mynd/EPA

Handknattleikssamband Evrópu hefur ákveðið að aðeins verði selt í fjórðung þeirra sætafjölda sem eru í keppnishöllunum í Slóvakíu þar sem hluti Evrópumeistaramótsins í handknattleik karla fer fram og hefst í næstu viku.

Takmarkanirnar koma ekkert við þá áhorfendur sem ætla að fylgja íslenska landsliðinu eftir á mótinu vegna þess að allir leikir íslenska landsliðsins á mótinu fara fram í Búdapest.

Vegna mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar verður aðeins heimilt að selja 2.500 aðgöngumiða á hvern leik sem fram fer í Bratislava en keppnishöllin rúmar 10 þúsund áhorfendur. Í Kosice mega að hámarki 2.080 áhorfendur vera á hverjum leik.

Allir áhorfendur verða að gera sýnt fram á bólusetningu við covid19 eða fært sönnur á að hafa fengið sjúkdóminn á síðustu 180 dögum. Eins er án undatekninga grímuskylda í keppnishöllunum.


Hugsanlega verður einnig gerð krafa um neikvæða niðurstöðu úr nýlegu hraðprófi. Verður tilkynnt á morgun hvort svo verður.

Engar fjöldatakmarkanir í Búdapest

Eins og sakir standa er ekki gert ráð fyrir að fjöldatakmarkanir verði á leikjum sem fram fara í Ungverjalandi. Áhorfendur á leikjum sem fara fram í Ungverjalandi verða að geta uppfyllt eitthvað af eftirfarandi skilyrðum til þess að fá aðgang að leikjum.

A. Að geta sannað með vottorði að hafa fengið veiruna og læknast af henni.
B. Geta framvísað bólusetningarvottorði.
C. Eða hafa undir höndum staðfesta neikvæða niðurstöðu úr PCR prófi sem er ekki eldra en 72 klukkustunda gamalt.
Til viðbótar verða allir áhorfendur sex ára og eldri að bera grímur sem hylja nef og munn.


- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -