- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ferðin endaði í ævintýralegum átján klukkutímum“

Leikmenn Fjölnis fengu að kynnast ferðalögum að vetri. Mynd /Þorgils G.
- Auglýsing -

Raunir leikmanna Fjölnis voru ekki á enda þegar þeir gengu daufir í dálkinn af leikvelli eftir tap fyrir Herði, 38:36, í íþróttahúsinu á Torfnesi á sunnudagskvöldið í næst síðustu umferð Grill66-deildar karla. Við tók löng heimferð sem tognaði meira úr en menn óraði fyrir. Nærri sólarhringur leið frá brottför úr Skutulsfirði og þar til komið var í heimhöfn í Reykjavík.

Festust á Þröskuldum

„Við sluppum yfir Steingrímsfjarðarheiði í leiðindaveðri en þegar komið var upp á Þröskulda um miðnætti var brostið á með ofankomu, skafrenningi með tilheyrandi ófærð. Rútan sem flutti okkur festist og sat föst þangað til um klukkan níu á mánudagsmorgun,“ sagði Viktor Lekve aðstoðarþjálfari Fjölnis. Þar með var ekki öll sagan sögð.

Eina ráðið var að bíða

„Björgunarsveitarhópur kom til okkar um tvö leytið aðfaranótt sunnudags en hafði engin ráð til að losa rútuna vegna fannfergis. Við höfðum því engin ráð önnur en að halda kyrru fyrir í rútunni þangað til á mánudagsmorgun snjóruðningstæki birtust og opnuðu veginn. Þá tókst að losa rútuna og fleiri farartæki sem voru föst á heiðinni. Við vorum lausir um klukkan níu,“ sagði Viktor.

Adam var ekki lengi í Paradís

Adam var ekki lengi í Paradís því fljótlega eftir að rútan komast af stað aftur fór hún út af veginum. Tók um klukkustund að ná rútunni inn á rétta braut á ný.

Bilaðar bremsur í Bröttubekku

„Sem betur fór rútan útaf á jafnsléttu og ekkert alvarlegt kom fyrir. Áfram héldum við leið okkur eftir útaf aksturinn en þegar komið var í Bröttubrekku bilaði bremsukerfið svo ekki var lengra farið á þeirri rútu. Aftur tók við bið í tvær klukkustundir meðan beðið var eftir öðru farartæki sem skilaði okkur á leiðarenda. Ferðin endaði í ævintýralegum átján klukkutímum,“ sagði Viktor sem undirstrikaði að tafir sem þessar í vetrarferðum um landið væri ekki bundar við heimsóknir til Ísafjarðar.

Hluti af leiknum

„Ferðir eins og þessar eru bara hluti af því að taka þátt í handboltanum. Við sem förum eina ferð á ári til Ísafjarðar og eina ferð til Akureyrar getum ekki kvartað.“

Þreyta í mannskapnum

„Þetta voru erfiðir 20 tímar. Fyrst að tapa æsispennandi handboltaleik þar sem talsvert var undir og síðan æði löng heimferð. Það var mikil þreyta í mannskapnum þegar heim var komið enda lítið hægt að sofa í rútunni á leiðinni. Menn fá nú góðan tíma til að kasta mæðinni og jafna sig eftir ferðina áður en að lokaleiknum kemur,“ sagði Viktor Lekve aðstoðarþjálfari Fjölnis í samtali við handbolta.is.

Spennandi lokaumferð

Fjölnir er í þriðja sæti Grill66-deildar karla fyrir síðustu umferðina sem fram fer á föstudaginn. Þór Akureyri er stigi á eftir Fjölni og mætir toppliði Harðar á sama tíma og Fjölnir sækir ungmennalið Hauka heim á Ásvelli.

Víst er að Fjölnir og Þór mætast í 1. umferð umspilsins. Þau eru og verða í þriðja til fjórða sæti. Einungis leikur vafi á hvort þeirra hreppir þriðja sætið og þar með heimaleikjarétt ef grípa þarf til oddaleiks.

Hörður með eins stigs forskot

Hörður hefur eins stigs forskot í efsta sæti á ÍR sem sækir ungmennalið Aftureldingar heim í síðustu umferðinni á föstudaginn. Hörður stendur betur að vígi í innbyrðisleikjum ef sú staða kemur upp að Hörður og ÍR verði jöfn en það gerist aðeins ef Hörður og Þór skilja jafnir.


Efsta lið Grill66-deildar tekur sæti í Olísdeildinni en það sem hreppir annað sæti tekur þátt í umspili með og mun að öllum líkindum mæta liði Kórdrengja í fyrstu umferð.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -