- Auglýsing -
- Auglýsing -

FH með í Evrópukeppni fimmta árið í röð

Leikmenn Selfoss og FH verða með í Evrópukeppninni í haust. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„FH verður í Evrópupottinum fimmta árið í röð þegar dregið verður,“ sagði Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar Hafnarfjarðarliðsins við handbolta.is í morgun þegar hann staðfesti að FH-ingar ætli að senda karlalið sitt til keppni í Evrópubikarkeppninni sem hefst í haust.


Þar með er ljóst að öll íslensku karlaliðin fjögur sem eiga rétt á að taka þátt í Evrópukeppni félagsliða verða í hattinum þegar dregið verður. Auk þess er staðfest að hið minnsta tvö af kvennaliðunum fjórum sem geta tekið þátt munu nýta þátttökuréttinn. Frestur til skráningar er til næsta þriðjudags og fer skráning í Evrópukeppnina fram í gegnum skrifstofu Handknattleikssambands Íslands.


Karlaliðin sem hafa boðað þátttöku eru:
Valur, Haukar, FH og Selfoss.

Valur, sem landsmeistari, á rétt á sæti í undankeppni Evrópudeildarinnar. Haukar, FH og Selfoss verða með í Evrópubikarkeppninni. Valsmenn geta einnig veðjað á þá keppni í stað Evrópudeildarinnar.


Kvennaliðin sem hafa staðfest þátttöku eru:
KA/Þór og Valur.

Íslandsmeistarar KA/Þórs í kvennaflokki eru í sömu sporum og karlalið Vals að geta valið á milli þess að taka þátt í undankeppni Evrópudeildarinnar eða stinga sér til sunds í Evrópubikarkeppninni. Kvennalið Vals hefur aðeins keppnisrétt í Evrópbikarnum.


ÍBV og Fram geta einnig sent lið til leiks í Evrópubikarkeppninni en á þessari stundu hefur handbolti.is ekki fengið staðfest hvort þau ætli að láta slag standa.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -