- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fleiri leikreglubreytingar sem ekki hafa farið hátt taka gildi

Bjarki Bóasson og Anton Gylfi Pálsson dómarar bera saman bækur sínar. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Um síðustu mánaðarmót tóku gildi fjórar leikreglubreytingar á alþjóðareglum í handknattleik. Fjallað var ítarlega um þær í meðfylgjandi grein á handbolta.is í vor. Fleiri breytingar, sem ekki hafa farið eins hátt, tóku gildi á reglunum hinn 1. júlí.

Kristján Gaukur Kristjánsson formaður dómararnefndar HSÍ, hefur dregið saman helstu atriðin sem breyttust, lesendum handbolta.is til glöggvunar og fróðleiks. Rennir hann yfir þær hér með vísun í reglubókina sem nú er verið í óða önn að uppfæra.

Viðbótarbreytingar á leikreglubókinni við lokaútgáfu frá IHF

Í kafla I. í leikreglunum eru eftirfarandi 3 breytingar.

Hér verður farið yfir þær:

Bls. 13: Regla 4:2 (Lið, innáskiptingar, búnaður, meiðsli…) – viðbót við reglu.

Neðst í reglu 4:2 er komin eftirfarandi viðbót:

Athugasemd:

IHF, álfu- og landssambönd mega víkja frá reglum um fjölda starfsmanna í leikjum á þeirra vegum. Samt sem áður má ekki leyfa fleiri en 5 starfsmenn.

Bls. 27-28: Regla 10:4 (Frumkast) – viðbætur og breyting við reglu.

Við frumkast í upphafi hvors hálfleiks (einnig í framlengingum) verða allir leikmenn að vera á eigin vallarhelmingi eða inni í frumkastssvæðinu, ef það á við.

Við frumkast eftir að mark hefur verið skorað mega mótherjar kastarans vera á báðum vallarhelmingum.

Sé frumkast tekið frá miðlínu (10:3a) verða mótherjar að vera minnst 3 metra frá þeim leikmanni sem tekur frumkastið (15:4, 15:9, 8:7c).

Sé frumkast tekið frá frumkastssvæði (10:3b) skulu andstæðingar vera með allan líkamann utan svæðisins (15:4, 15:9, 8:7c).

Bls. 33: Regla 15:1 „Kastari“ (almenn fyrirmæli um framkvæmd kasta) – viðbót við reglu.

Neðst í reglu 15:1 er komin eftirfarandi viðbót:

Athugasemd:

Fyrir framkvæmd kasts (nema útkasts) skal kastarinn vera í uppréttri stöðu, þ.e. engir líkamshlutar aðrir en fætur mega vera í snertingu við gólfið.

Í kafla II. „Skýringar á leikreglum“ í leikreglunum er breyting á skýringu 3 „Liðsleikhlé“.

Á bls. 53 fyrir ofan athugasemdina neðst í skýringunni er komin eftirfarandi viðbót:

Lið má biðja um liðsleikhlé beint með því að ýta á hnapp (hljóðmerki) á rafrænu tæki í stað þess að nota græn spjöld. Hnappurinn er beintengdur við opinberu leikklukkuna. Þegar ýtt hefur verið á hnappinn mun tíminn stöðvast samstundis. Til þess að allir aðilar taki eftir liðsleikhléinu er það einnig gefið til kynna með hljóðmerki. Nánari skýringar eru í Reglum um Rafræn Liðsleikhlé.

Í kafla IV. „Leiðbeiningar og túlkanir“ í leikreglunum eru komnar 12 breytingar.

Hér verður farið yfir þær:

Bls. 64: Veltivörn marka (regla 1:2) – ný túlkun.

Mörk skulu vera tryggilega fest við gólf eða vegg fyrir aftan þau, eða útbúin með veltivörn. Þetta nýja ákvæði er samþykkt með það að markmiði að forðast slys.

Bls. 64: Meiddur markvörður og aukakast (regla 2:5) – ný túlkun.

Ef að markvörður meiðist og aukakast er dæmt sem tekið skal eftir lokaflaut þá má varnarlið skipta um markvörð. Þessi undantekning á ekki við um varnarmenn.

Bls. 64: Aukakast eða vítakast eftir lokaflaut (reglur 2:6, 8:10c) – ný túlkun.

Þegar um brot eða ódrengilega framkomu varnarmanna er að ræða við framkvæmd aukakasts eða vítakasts eftir lokaflaut þá skal refsa þeim varnarmönnum persónulega samkvæmt reglum 16:3, 16:6 eða 16:9. Endurtaka skal kastið (regla 15:9, þriðja málsgrein). Regla 8:10c á ekki við í þessum tilvikum.

Bls. 64-65: Notkun varabolta (regla 3:3) – ný túlkun.

IHF, álfu- og landssambönd mega leyfa notkun varabolta sem ekki eru staddir við ritaraborð. Notkun varabolta er ákveðin af dómurum samkvæmt reglu 3:4.

Bls. 66: Leikmaður kemur inn á í röngum lit eða með rangt númer (reglur 4:7, 4:8) – ný túlkun.

Brot á reglum 4:7 og 4:8 leiða ekki til þess að lið missi vald á bolta. Þau leiða aðeins til truflunar á leik til þess að skipa leikmanni að leiðrétta mistökin og leikur hefst á ný með kasti til þess liðs sem hafði vald á boltanum.

Bls. 66: Tæknibúnaður á skiptisvæði (reglur 4:7-4:9) – ný túlkun.

IHF, álfu- og landssambönd mega leyfa tæknibúnað á skiptisvæði. Búnaðinn skal nota á sanngjarnan hátt, og búnaður til samskipta við útilokaða starfsmenn eða leikmenn er ekki heimilaður.

Bls. 66-67: Aðstoð við meidda leikmenn (regla 4:11) – viðbót við túlkun.

Í þeim tilfellum að nokkrir leikmenn sama liðs hafa meiðst, t.d. vegna áreksturs, mega dómarar eða eftirlitsmaður gefa fleiri mönnum með leikheimild leyfi til þess að koma inn á völlinn til þess að aðstoða þessa meiddu leikmenn, að hámarki tveir menn fyrir hvern meiddan leikmann. Ennfremur fylgjast dómarar og eftirlitsmaður með sjúkraliðum sem þá koma inn á völlinn.

Bls. 67-68: Útilokun markvarðar (regla 8:5 athugasemd) – ný túlkun.

Þetta á við þegar markvörður kemur út úr markteig eða er í svipaðri stöðu utan markteigs og veldur árekstri framan á andstæðing. Þetta á ekki við þegar:

a)markvörður hleypur í sömu átt og andstæðingur, til dæmis eftir að hafa komið aftur inn á völlinn frá skiptisvæði.

b) sóknarmaður hleypur á eftir bolta sem er á milli sóknarmanns og markvarðar.

Í þeim tilfellum taka dómarar ákvörðun byggða á sýn þeirra á staðreyndum.

Bls. 69-70: Að virða ekki fjarlægð (regla 8:10c) – viðbót við túlkun.

„Að virða ekki fjarlægð“ leiðir til útilokunar og vítakasts ef ekki er hægt að taka skot á síðustu 30 sekúndum leiksins (!).

Reglan á við ef brotið á sér stað á síðustu 30 sekúndum leiksins eða um leið og lokamerki gellur (sjá reglu 2:4 fyrsta málsgrein). Í því tilfelli taka dómarar ákvörðun byggða á sýn þeirra á staðreyndum (regla 17:11).

Ef leikur er stöðvaður á síðustu 30 sekúndum vegna brots sem ekki tengist undirbúningi eða framkvæmd kasts (til dæmis röng skipting, ódrengileg hegðun á skiptisvæði), skal beita reglu 8:10c.

Ef að skotið, til dæmis, er framkvæmt en varið af leikmanni sem stendur of nálægt og eyðileggur útkomu kastsins eða truflar kastarann við framkvæmd með virkri aðgerð, skal einnig beita reglu 8:10c.
Ef að leikmaður stendur nær en 3 metra frá kastara en truflar hann ekki á virkan hátt við framkvæmd kastsins þá er engin refsing. Ef að leikmaðurinn sem stendur of nálægt nýtir sér staðsetningu sína til þess að verja skot eða stela sendingu frá kastara þá á regla 8:10c einnig við.

Bls. 70: Notkun myndbandssannana (regla 9:2) – ný túlkun.

Þegar þarf ákvörðun um hvort að mark hafi verið skorað eftir notkun myndbandstækni þá verður aukinn lokafrestur á því að taka mark til baka, sem undir reglu 9:2 er einungis þar til næsta frumkast hefur verið tekið, sem eykur þessi takmörk fram að þeim tíma að lið missi næst vald á bolta.
Nánari upplýsingar eru í Reglum um Myndbandssannanir.

Bls. 70-71: Ákvörðun um vítakast við tómt mark (regla 14:1, skýring nr. 6c) – ný túlkun.

Skilgreiningin á upplögðu markfæri í þeim aðstæðum sem lýst er í skýringu nr. 6c þegar það er hreint og hindrunarlaust færi á að kasta boltanum í tómt mark krefst þess að leikmaður sé með vald á bolta og reyni augljóslega að skjóta beint að tómu marki. Þessi skilgreining á upplögðu markfæri á við óháð því um hvers konar brot er að ræða og því hvort að bolti sé úr leik, og hvert það kast sem á að framkvæma skal vera tekið út frá réttri staðsetningu kastara og liðsfélaga hans.

Bls. 71: Mjög gróf ódrengileg hegðun eftir útilokun (regla 16:9d) – ný túlkun.

Ef að leikmaður, eftir að hafa fengið útilokun, er sekur um mjög grófa ódrengilega hegðun samkvæmt reglu 8:10a, skal refsa leikmanninum með viðbótarútilokun og skriflegri skýrslu, og það fækkar í liði hans á vellinum um einn leikmann í 4 mínútur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -