- Auglýsing -
- Auglýsing -

Forráðamenn Århus Håndbold leggja árar í bát

Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

Danska úrvalsdeildarliðið Århus Håndbold verður lagt niður í núverandi mynd og mun ekki leika framar undir því heiti í úrvalsdeild karla, samkvæmt því sem TV2 í Danmörku greinir frá í morgun. Eftir því sem næst verður komist mun Århus Håndbold renna inn í grannliðið Skanderborg Håndbold frá og með næsta keppnistímabili.


Nánar verður greint frá örlögum Århus Håndbold og væntanlegri samvinnu við Skanderborg Håndbold á blaðamannafundi síðar í dag.


Århus Håndbold hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár. Það vann til silfurverðlauna í dönsku deildinni 2005 með Róbert Gunnarsson fremstan í flokki. Þremur árum síðar varð Árósarliðið í þriðja sæti. Síðast varð liðið bikarmeistari 2012.


Erik Veje Rasmussen hefur þjálfað Århus Håndbold um langt árabil og nokkrir íslenskir handknattleiksmenn leikið fyrir félagið á síðustu árum. Má þar nefna fyrrgreindan Róbert, Ómar Inga Magnússon, Sigvalda Björn Guðjónsson og Sturlu Ásgeirsson.


Århus Håndbold hafnaði í 12. sæti af 14 liðum í dönsku úrvalsdeildinni sem lauk í gær. Liðið mun ekki taka þátt í úrslitakeppni neðri liða um að forðast fall en sú keppni stendur fyrir dyrum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -