- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fóru með tvö stig frá Þrándheimi

- Auglýsing -

„Mjög góður sigur í dag á erfiðum útvelli. Kemur okkur aðeins frá miðjunni á töflunni,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari norska B-deildarliðsins Volda við handbolta.is í dag eftir að lið hans fór um langan veg og sótti tvö stig til Þrándheims. Volda vann þar Charlottenlund SK í miklum markaleik, 34:28.

Segja má að Volda hafi lagt grunn að sigrinum í fyrri hálfleik en liðið var með sex marka forskot að honum loknum, 17:11. Þótt leikmenn Charlottenlund SK hafi sótt í sig veðrið í síðari hálfleik tókst þeim ekki að éta niður forskot Voldaliðsins sem færðist upp í annað sæti deildarinnar með þessum sigri. Veran í öðru sæti gæti þó orðið skammvinn því Bærum er stigi á eftir og er að leika þessa stundina.

Sara Dögg Hjaltadóttir lék afar vel fyrir Volda í dag. Hún var næst markahæst, skoraði sex mörk í átta skotum og átti auk þess fimm stoðsendingar.

Auk Halldórs Stefáns og Söru Daggar er Hilmar Guðlaugsson aðstoðarþjálfari Volda.

Framundan er átta tíma ferð með rútu frá Þrándheimi til Volda en það léttir óneitanlega yfir ferðalöngum að hafa tvö stig með í farteskinu, að sögn Halldórs Stefáns.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -