- Auglýsing -

Frábær undirbúningur skilaði sér í stórsigri

Einar Baldvin Baldvinsson og Birgir Steinn Jónsson, leikmenn Gróttu. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

„Úrslitin eru afrakstur mjög góðs undirbúnings fyrir þennan leik. Arnar Daði og Max voru að minnsta kosti búnir að nota sjö klukkutíma til að fara vel yfir ÍBV-liðið auk vídeófunda með okkur og langrar æfingar í gær. Allt þetta skilaði sér glæsilega í dag,“ sagði Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Gróttu, sem var einn þeirra leikmanna liðsins sem fór á kostum í sigurleiknum á ÍBV, 36:26, í Olísdeild karla í handknattleik í gær.

Svitnaði ekki í fyrri hálfleik

„Sóknarleikurinn var frábær og varnarleikurinn einnig, ekki síst í fyrri hálfleik. Þá var vörnin til fyrirmyndar. Ég svitnaði ekki einu sinni. Ég gerði ekki neitt. Strákarnir í vörninni eiga allan heiðurinn. Það var ekki slæmt fyrir mig að vera fyrir aftan svona góða vörn,” sagði Einar Baldvin og brosti en hann varði 13 skot í fyrri hálfleik og var með liðlega 56% markvörslu.

„Ég missti dampinn framan af síðari hálfleik og pirraði mig aðeins á eigin frammistöðu. En ég komst inn í leikinn aftur undir lokin. Þegar upp er staðið þá unnum við tíu marka sigur á mjög sterku liði ÍBV. Það er nokkuð sem gerist ekki á hverjum degi,“ sagði Einar Baldvin sem lauk leiknum með 40,5% markvörslu.

Mjög ánægður með vistaskiptin

Einar Baldvin gekk til liðs við Gróttu frá Íslandsmeisturum Vals fyrir tímabilið og hefur staðið sig vel. Hann er með 11,6 varin skot að jafnaði í leik samkvæmt tölfræði HBStatz, 31,5% hlutfall. Einar Baldvin sagðist vera mjög ánægður með veru sína í Gróttu enda hafi sér gengið vel í flestum leikjum. Hann sagði það ekki síst Max [Maksim Akbachev] að þakka.

„Hann hefur bent mér á eitt og annað sem ég hafði ekki leitt hugann að. Ég hef vaxið sem markvörður eftir komuna til Gróttu og gengið nokkuð vel í flestum leikjum, að leiknum við Selfoss í vikunni undanskyldum. Þá fór ég beint úr sóttkví og í leik svo það var kannski ekki að marka.

Rífandi góð stemning við varamannabekk Gróttu í leiknum við ÍBV í gær. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Metnaðarfullir þjálfarar

Einnig spilar mjög inn í að vörnin hjá okkur hefur verið mjög góð auk þess sem félagsskapurinn er frábær. Þjálfararnir Arnar Daði og Max er mjög metnaðarfullir sem smitast út til allra leikmanna. Ég finn fyrir miklu trausti af þeirra hálfu sem skiptir mig miklu máli,” sagði Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Gróttu, í samtali við handbolta.is í Hertzhöllini í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -