Fram komst yfir eftir þriðja háspennuleikinn

Þriðji úrslitaleikur Fram og Vals fer fram í kvöld. Mynd/HSÍ

Fram komst yfir á ný í rimmu sinni við Val eftir sigur í þriðja háspennuleik liðanna í Framhúsinu í kvöld, 25:22, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 12:9. Fram hefur þar með tvo vinninga en Valur einn. Fjórða viðureign liðanna verður á sunnudagskvöld í Origohöll Valsara á Hlíðarenda. Vinni Fram þann leik vinnur liðið Íslandsmeistaratitilinn. Takist Val að vinna og jafna þar með metin verður oddaleikur á þriðjudagskvöld á heimavelli Fram.


Varnarleikur og fleiri mistök voru áberandi í fyrri hálfleik í leiknum í kvöld en tveimur fyrstu leikjum liðanna. E.t.v. er þreyta farin að gera vart við sig hjá leikmönnum beggja liða. Vörn Fram var alveg sérdeilis öflug og átti Valur í mestu vandræðum með brjóta hana á bak aftur. Það var aðeins framan af sem það tókst. Valur var yfir, 1:0, og síðar 5:3, eftir 13 mínútur.


Eftir það tók Fram við forskotinu. Hafdís Renötudóttir tók til við að verja í marki Fram sem náði tvisvar þriggja marka forskoti, 10:7 og 12:9, þegar fyrri hálfleikur var á enda. Karen tryggði Fram forskotið þegar hún skoraði á síðustu sekúndum hálfleiksins.


Hafdís lauk fyrri hálfleik með 50% hlutfallsmarkvörslu. Sömu sögu var ekki að segja af stöllum hennar hinum megin vallarins.


Framarar virtust ætla að slíta sig frá Valsliðinu framan af síðari hálfleik. Sú varð ekki raunin. Fram komst fjórum mörkum yfir, 15:11. Valur sneri við blaðinu og minnkaði muninn í eitt mark, 16:15. Eftir það má segja að eitt mark hafi lengst af skilið liðin að. Valur átti þess kost að jafna metin í stöðunni, 21:20, en lánaðist það ekki.


Í æsispennu lokakaflans skoraði Valur tvö mörk í röð og minnkaði muninn í eitt mark, 23:22. Nær komust gestirnir ekki.


Hraðinn var alveg eins og áður í fyrri leikjum liðanna, þ.e. mikill. Mistökin voru hinsvegar fleiri eins áður er getið. Hafdís varði vel í marki Fram og þegar dæmið er gert upp þá var það atriðið sem helst skildi liðin að þegar upp er staðið, utan þess að Fram tapaði aldrei frumkvæðinu síðustu 45 mínúturnar.


Ljóst er að ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu einvígi. Hvað gerist á sunnudaginn þegar þreytan hefur tekið enn meiri toll af leikmönnum?


Mörk Fram: Karen Knútsdóttir 9/4, Perla Ruth Albertsdóttir 4, Steinunn Björnsdóttir 4, Emma Olsson 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Kristrún Steinþórsdóttir 2.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 16 – 42,1%.

Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5/4, Morgan Marie Þorkelsdóttir 4, Hildigunnur Einarsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 3, Mariam Eradze 2, Lovísa Thompson 2, Auður Ester Gestsdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 7, 25,9% – Andrea Gunnlaugsdóttir 1, 16,7%.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Handbolti.is var í Framhúsinu og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -