- Auglýsing -

Framlengir fram yfir ÓL 2024

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla. Mynd/DHB

Alfreð Gíslason hefur framlengt saming sinn við þýska handknattleikssambandið um þjálfun karlalandsliðsins fram yfir Ólympíuleikana sem fram eiga að fara í París árið 2024. Þýska handknattleikssambandið tilkynnti þetta í hádeginu. Fyrri samningur Alfreðs um þjálfun landsliðsins átti að renna út að loknu Evrópumeistaramótinu sem framundan er í næsta mánuði og fer fram í Ungverjalandi og í Slóvakíu.

„Eftir mjög góð samtöl við forráðamenn sambandsins þá er ég ánægður með að geta haldið áfram á þeirri leið sem mörkuð hefur verið við uppbyggingu eftir Ólympíuleikana,“ segir Alfreð í tilkynningu sambandsins en hann tók við þjálfun þýska karlalandsliðsins í febrúar 2020.

Mikil endurnýjun hefur átt sér stað í þýska landsliðinu eftir leikana í sumar sem m.a. má sjá á þeim landsliðshópi sem Alfreð valdi á dögunum til þátttöku á EM.


„Öll sú reynsla sem Alfreð býr yfir fellur fullkomlega að því starfi sem fyrir dyrum stendur við að byggja upp nýtt og öflugt þýskt landslið,“ segir Andreas Michelmann, forseti þýska handknattleikssambandsins í tilkynningu.

Alfreð, sem er 62 ára gamall, hefur um langt skeið verið einn fremsti handknattleiksþjálfari heims. Hann hefur þjálfað í Þýskalandi í nærri aldarfjórðung og unnið allt sem hægt er að vinna sem þjálfari félagsliða. Alfreð var þjálfari íslenska karlalandsliðsins frá 2006 til 2008 samhliða þjálfun hjá Gummersbach.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -