- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrst og fremst verðum við að ljúka okkar verki

Ýmir Örn Gíslason, fyrirliði íslenska landslisins í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Fyrst og fremst verðum við að vinna okkur leik áður en við veltum fyrir okkur því hvað tekur við,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, fyrirliði landsliðsins í handknattleik karla við handbolta.is í gær, sólarhring fyrir síðasta leik íslenska landsliðsins í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik, gegn landsliði Svartfjallalands.


„Ég hef horft á fjóra leiki með Svartfellingum á mótinu og þeir eru mjög góðir. Þótt þeir hafi tapað fyrir Frökkum með níu marka mun í gær þá léku þeir hörkuleik, með fínum varnarleik og góðum skyttum, bæði hægra og vinstra megin. Línumaðurinn er öflugur og hornamennirnir eru fljótir. Markvörðurinn hefur varið vel allt mótið, mikill stemningskall,“ sagði Ýmir Örn.

Þeir mæta dýrvitlausir

„Þeir eiga líka möguleika á að ná fimmta sætinu gangi allt upp. Þess vegna mæta þeir alveg dýrvitlausir í leikinn á móti okkur. Við verðum að vera tilbúnir að mæta því,“ sagði Ýmir Örn.


Athygli hefur vakið hversu vel þeir hafa náð saman í vörninni, Ýmir Örn og Elliði Snær sem nú er kominn í einangrun. Engu er líkara en að þeir lesi hugsanir hvors annars á leikvellinum.

Erum ekki svo ólíkir á vellinum

„Við erum kannski ekkert ólíkir menn inn á vellinum. Gefum allt sem við eigum í leikinn. Það hefur sýnt sig að við náum vel saman. Við erum á líkum aldri, aðeins ár á milli okkar. Ég held að það séu ekki mörg landslið með tvo svo unga menn saman í hjarta varnarinnar og reyndar margir í liðinu á okkar aldri.


Því miður þá fengum við þær fréttir áðan að Elliði hafi greinst með covid. Sannarlega slæmt fyrir hann og okkur en við höfum sýnt það hingað til að það kemur maður í manns stað.


Fyrir mótið sögðum við að við ætlum ekki að láta neitt utanaðkomandi trufla okkur. Sannarlega er þetta orðið nokkuð langt gengið. En áfram gakk,“ sagði Ýmir Örn Gíslason í samtali við handbolta.is í gærdag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -