- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrsta tapið var í dagsferð

Línumaðurin Stojanche Stoilov reyndist leikmönnum Flensburg óþægur ljár í þúfu í kvöld. Hér hefur hann snúið á Simon Hald Jensen og hyggst skora eitt af átta mörkum sínum í leiknum í kvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Ríkjandi Evrópumeistarar Vardar Skopje voru í kvöld fyrsta liðið til þess að leggja þýska liðið Flensburg á þessari leiktíð þegar liðin leiddu saman hesta sína í Meistaradeild Evrópu í handknattleik á heimavelli Vardar í Skopje í Norður-Makedóníu, lokatölur 31:26. Vegna kórónuveirunnar kom lið Flensburg með einkavél til SKopje í dag og fór rakleitt aftur til baka í kvöld.

Flensburg hafði fyrir leikinn í kvöld leikið sex leiki í þýsku 1. deildinni og í Meistaradeild Evrópu og unnið þá alla. Vardar-liðið var sterkara og lengst af skrefi undan í viðureigninni. Liðið var með tveggja marka forskot, 17:15, þegar leiktíminn var hálfnaður.

Vegna kórónuveirunnar var þetta aðeins annar leikur Vardar á keppnistímabilinu í Meistaradeildinni og um leið fyrsti sigurinn. Liðið tapaði fyrir Meshkov Brest, 24:22, fyrir um mánuði.

Línumaðurinn sterki Stojanche Stoilov var markahæstur hjá Vardar með átta mörk. Þjóðverjinn Christian Dissinger og Lovro Jotic voru næstir með fimm mörk hvor. Göran Johannessen var markahæstur hjá Flensborgarliðinu með sjö mörk og Magnus Jöndal var næstu með fjögur.

Mikkel Hansen skoraði átta mörk og Elohim Pranti skoraði sex sinnum fyrir PSG þegar liðið vann Noregsmeistara Elverum, 35:29, í París. Luc Ablalo mætti sínum gömlu samherjum í fyrsta sinn eftir að hann gekk til liðs við Elverum í sumar eftir að hafa orðið samningslaus hjá franska stórliðinu Abalo skoraði fjögur mörk. Michael Pujol skoraði sjö mörk fyrir Elverum og var atkvæðamestur leikmanna liðsins við að skora.

Porto vann vængbrotið lið Pick Szeged í Porto, 25:19. Nokkuð vantaði inn í ungverska liðið í leiknum en kórónuveiran hefur sett talsvert strik í reikninginn á þeim bæ eins og víða annarstaðar. Miguel Soares skoraði sjö mörk fyrir Porto sem var með yfirhöndina í leiknum nánast frá upphafi til enda. Gamla spænska brýnið, Joan Canellas, var markahæstur hjá Szeged með sjö mörk í 13 skotum.

Stefán Rafn Sigurmannsson er frá keppni vegna meiðsla og var þar af leiðandi ekki í leikmannahópi Szeged að þessu sinni fremur en í fyrri leikjum liðsins á keppnistímabilinu.

Staðan í A-riðli (leikir innan sviga):

Vive Kielce 6(4), Flensburg 6(4), Porto 4(4), Meshkov Brest 4(4), PSG 2 (3), Vardar 2(2), Elverum 2(3), Szeged 0(2).

Staðan í B-riðli (leikir innan sviga):

Barcelona 8(4), Veszprém 8(4), Aalborg 8(4), Kiel 4(3), Nantes 2(4), Motor Zaporozhye 0(3), Zagreb 0(4), Celje 0(4).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -