- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrsti leikurinn í eitt og hálft ár – stolt og þakklát

Hafdís Renötudóttir, markvörður t.v. ásamt samherja sínum Hörpu Maríu Friðgeirsdóttur þegar fagnað var fyrsta titli tímabilsins í september, sigri í meistarakeppni HSÍ. Þær fönguðu einnig í gærkvöld í lok tímabilsins. Mynd/Skapti Hallgrímsson, Akureyri.net
- Auglýsing -

Hafdís Renötudóttir markvörður Fram lék í gær sinn fyrsta kappleik síðan í byrjun mars á síðasta ári þegar hún stóð í marki Fram í úrslitaleik Coca Cola-bikarkeppninnar í Laugardalshöll. Þá eins og nú var andstæðingurinn KA/Þór og í gær vann Fram leikinn alveg eins og í Laugardalshöllinni snemma í mars 2020 þegar kórónuveiran var að knýja dyra af þunga hér á landi.


Ástæða þess að Hafdís hefur ekki leikið handboltaleik síðan er ekki veiran heldur hefur hún verið einstaklega óheppin með höfuðhögg. Vegna þeirra hefur Hafdís ítrekað neyðst að taka sér hlé frá handknattleik um lengri og skemmri tíma. M.a. varð ekkert af veru hennar hjá Lugi í Svíþjóð á síðasta keppnistímabili af þessum sökum. Samningnum var rift og Hafdís flutti heim til Íslands.


Hafdís mætti til leiks í KA-heimilið í gær með Fram gegn KA/Þór í meistarakeppni HSÍ. Hún átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en átti stærstan þátt í að snúa leiknum Fram í hag í byrjun síðari hálfleiks. Hafdís skellti þá í lás í markinu og varði hvert skotið á fætur öðru, mörg úr opnum færum. Þar með skildu leiðir liðanna og Fram skoraði átta mörk í röð, breytti stöðunni úr 13:12 KA/Þór í vil í 20:13.


„Þetta er fyrsti leikurinn minn síðan við í Fram tókum þær í bikarnum,“ sagði Hafdís himinglöð í samtali við handbolta.is eftir sigurleik Fram í KA-heimilinu í gær, 28:21.


„Ég er ánægð með að skotin sem ég varði í byrjun síðari hálfleiks hafi komið ákveðinni keðjuverkun af stað,“ sagði Hafdís við handbolta.is. “Það kom flæði í leikinn okkar sem hófst hjá markverðinum, fór yfir í vörnina og síðan yfir í sóknina. Eitthvað í líkingu við það sem við vorum að tala um fyrir leikinn,” sagði Hafdís sem hefur unnið sig í gegnum erfiðleikana.


„Ég er rosalega þakklát og um leið mjög stolt af sjálfri mér og ánægð með stelpurnar fyrir framan mig. Heilsan er góð og heilahristingurinn hefur sem betur fer engin áhrif á mig lengur. Fyrst og fremst er bara mjög gaman í handbolta. Ég ætla að njóta hans á meðan hægt er,“ sagði Hafdís sem leikur með svamphring á höfðinu sem á að draga úr högginu verði hún fyrir því að fá boltann í enn eitt skiptið í höfuðið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -