- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gaman að mæta aftur á völlinn

Sverrir Pálsson, leikmaður Selfoss. Mynd/UMFSelfoss
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Sverrir Pálsson og leikmaður Selfoss lék sinn fyrsta leik í Olísdeildinni í nærri tvö ár á sunnudagskvöldið þegar hann tók þátt í leik Selfoss og Hauka í Set-höllinni á Selfossi. Síðasti leikur hans á fjölum Set-hallarinnar var 22. maí 2019 þegar Selfoss fagnaði Íslandsmeistaratitlinum með sigri á Haukum í fjórða leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn.


Skömmu fyrir upphaf Íslandsmótsins síðsumars 2019 sleit Sverrir krossband í hné og því miður þá varð hann aftur fyrir eins meiðslum réttu árið síðar, skömmu áður en flautað var til leiks í Olísdeildinni.

Búið að vera strögl

„Þetta er búið að vera strögl en kannski skásti tíminn til þess að taka þetta út á meðan covid hefur gengið yfir og minni stemning í kringum handboltann meðan að áhorfendur hafa varla mátt mæta á leiki,“ sagði Sverrir í samtali við handbolta.is í morgun.

Batt saman vörnina

Sverrir var lykilmaður í varnarleik meistaraliðs Selfoss vorið 2019. Hann batt saman vörnina og var skerið sem andstæðingarnir strönduðu á. Að ýmsra mati var Sverrir maður úrslitarimmunnar þótt frammistaða hans félli nokkuð í skuggann af öflugum sóknarmönnum Selfossliðsins.

Tekur þetta skref af skrefi

„Það var gaman að mæta á leikvöllinn aftur, ekki síst núna þegar áhorfendur mega mæta á leikina aftur,“ sagði Sverrir sem mætti til leiks í síðari hálfleik í leiknum við Selfoss og lét strax finna fyrir sér. Hann segist þó ekki ætla að fara framúr sér, heldur taka skref fyrir skref fyrir í einu.

„Við í Selfossliðinu erum vel settir með menn í miðju varnarinnar svo ég þarf ekki að byrja á fullu og leika alla leiki frá upphafi til enda. Maður tekur þetta skref fyrir skref. Við erum meðal annars með besta varnarmann deildarinnar í okkar hópi og því ekki sama þörf fyrir mig og áður,“ sagði Sverrir.

Vildi ekki gefast upp

Spurður hvort ekki hafi komið til greina að hætta eftir að hafa slitið krossband í tvígang á sama hné á einu ári sagði Sverrir ekki hafa hugleitt það alvarlega.

„Maður varð að prófa og sjá til hvað gerist meðan maður hefur gaman af handboltanum. Svo er að sjá til hvernig gengur,“ sagði varnarjaxlinn Sverrir Pálsson sem hefur bæst í leikmannahóp Selfoss á nýjan leik og byrjaður að láta til sín taka sem er sannkallað gleðiefni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -