Geggjað að upplifa þetta með strákunum

Benedikt Gunnar Óskarsson t.v. ásamt ömmu sinni og afa, Fanneyju Friðriksdóttur fyrrverandi leikmanni Fram og Benedikt Jónssyni. Arnór Snær Óskarssonar bróðir Benedikts er lengst t.h. Mynd/Ívar

„Þetta er bara alveg geðveikt. Ég get ekki lýst þessari tilfinningu almennilega,“ sagði Benedikt Gunnar Óskarsson þegar handbolti.is hitti hann í fögnuði Valsara eftir sigur á Íslandsmótinu í handknattleik í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í kvöld. Benedikt Gunnar varð þar með Íslandsmeistari í fyrsta sinn í meistaraflokki karla en hann kom eins og stormsveipur inn í liðið á leiktíðinni.


„Það fá ekki allir tækifæri til þess að taka þátt í svona ævintýri, þrír titlar á einu tímabili eða eiginlega fimm ef allt er talið. Þrennan er frábær.

Reyndi að nýta tækifærið

Það er stórkostlegt að fá tækifæri til þess að koma inn í þennan hóp. Eftir að Tumi Steinn [Rúnarsson] fór út til Þýskalands eftir áramót þá fékk ég stærra hlutverk sem ég reyndi að nýta eins vel og hægt var. Ég held að ég hafi nýtt tækifærið ágætlega,“ sagði Benedikt Gunnar en einn samherji hans í liðinu er eldri bróðir hans, Arnór Snær Óskarsson, auk þess sem faðir þeirra, Óskar Bjarni Óskarsson, er í þjálfarateymi meistaraflokks enda hokinn af reynslu á því sviði. Arnór Snær fór einnig á kostum á keppnistímabilinu.


Benedikt Gunnar var handleggsbrotinn á þessum tíma í fyrra og var ekki leikmannahópi Vals sem varð Íslandsmeistari þá. „Ég hefði örugglega ekki verið í liðinu hvort sem er. Þeim mun geggjaðra er það að upplifa þessa stund núna með strákunum,“ sagði Benedikt Gunnar Óskarsson, nýkrýndur Íslandsmeistari í handknattleik karla með Val í stuttu samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -