- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gerðum okkar allra, allra besta

Sunna Jónsdóttir í miðri vörninni í leiknum við Serba. Mynd/EHF
- Auglýsing -

„Við gerðum okkar allra, allra, allra besta en því miður þá dugði það ekki. Serbar eru aðeins sterkari en við eins og staðan er í dag,“ sagði Sunna Jónsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir tapið fyrir Serbum, 28:22, í síðasta leik landsliðsins í undankeppni EM 2022 í Zrenjanin í Serbíu í kvöld.


„Við vorum í leik allan fyrri hálfleikinn en misstum þær óþarflega langt frá okkur á síðustu mínútum hálfleiksins. Í upphafi síðari hálfleiks komum við inn af krafti. Vörnin var frábær og markvarslan kom með. Þá fórum við að gera klaufamistök í sókninni og nýttum ekki færin. Þetta var samt leikur allan tímann þótt sex mörkum hafi munað í lokin,“ sagði Sunna ennfremur.


„Tapið er hinsvegar svo svekkjandi vegna þess að við finnum hvað vantar lítið upp á að við stöndum þeim serbnesku á sporði. Við getum gengið stoltar frá borði en verðum um leið að læra því við erum að nálgast þær og fleiri lið. Við eigum ekki langt í land,“ sagði Sunna ennfremur.


„Hópurinn er frábær. Yngri stelpurnar eru svo flottar með okkur þeim þeim eldri. Breiddin er góð. Mann langar bara í meira og ná lengra. Það kemur að því að við komumst inn á stórmót,“ sagði Sunna Jónsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is í Zrenjanin.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -