- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gísli Þorgeir og Ómar Ingi fagna heimsmeistaratitli

Magdeburg, sigurlið heimsmeistarakeppni félagsliða 2021. Mynd/IHF
- Auglýsing -

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon urðu í dag heimsmeistarar félagsliða með liði sínu SC Magdeburg. Þýska liðið vann Evrópumeistara Barcelona í úrslitaleik keppninnar sem fram hefur farið í Jedda í Sádi-Arabíu síðustu daga, 33:28. Ómar Ingi fór á kostum í úrslitaleiknum, reyndar eins og hann hefur gert í öllum leikjum liðsins í keppninni. Hann skoraði 7 mörk og var markahæstur.


Þetta er í fyrsta sinn sem SC Magburg vinnur keppnina sem haldin er á vegum Alþjóða handknattleikssambandsins en í henni taka þátt sigurlið Evrópumóta félagsliða auk sigurliða úr öðrum álfumótum félagsliða. Til viðbótar tók danska meistaraliðið Aalborg Håndbold þátt en það hafnaði í öðru sæti í Meistaradeild Evrópu í vor eftir tap fyrir Barcelona í úrslitaleik.
SC Magdeburg var með tögl og hagldir í úrslitaleiknum í dag. Liðið var með þriggja marka forskot, 19:16, í hálfleik.

Barcelona tókst aðeins að sauma að þýska liðinu framan af síðari hálfleik áður en Gísli, Ómar og samherjar tóku af skarið þegar á leikinn leið og náðu mest sjö marka forskoti.
Gísli Þorgeir skoraði ekki marki í leiknum.

Aalborg, bronslið heimsmeistarakeppni félagsliða 2021. Mynd/IHF

Aron var í bronsliðinu

Fyrr í dag vann danska meistaraliðið Aalborg Håndbold brasilíska liðið Pinheiros örugglega í leiknum um bronsverðlaun mótsins, 34:29, eftir að hafa verið átta mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:11. Sao Paulo-liðið skoraði fjögur af síðustu fimm mörkum leiksins eftir að liðsmenn Aalborg höfðu slakað verulega á klónni þar sem sigurinn var síður en svo í hættu.


Aron Pálmarsson var í leikmannahópi Aalborg Håndbold í leiknum en kom lítið sem ekkert við sögu. Það eru jákvæð tíðindi að Aron hafi verið í hópnum og greinileg merki þess að hann er að jafna sig af meiðslum sem hafa herjað á hann um nokkra vikna skeið. Aron var einnig á leikmannalista liðsins fyrir viðureignina við SC Magdeburg í undanúrslitum keppninnar.


Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg.


Buster Juul var markahæstur í Álaborgarliðinu með sex mörk. Næstur var Felix Claar með fimm mörk. Phillipp Seifert skoraði sex mörk fyrir Pinheiros og var markahæstur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -