- Auglýsing -

Gjörólíkir andstæðingar

Aron Pálmarsson varð danskur bikarmeistari í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins segir það vera tvo ólíka andstæðinga, hollenska landsliðið sem íslenska landsliðið mætir á morgun og það portúgalska sem var andstæðingur gærdagsins. Hollenska landsliðið kom mjög á óvart á fimmtudagkvöld þegar það lagði ungverska landsliðið, lið heimamanna, fyrir framan 20 þúsund áhorfendur í Búdapest, 31:28.


„Hollendingarnir vilja halda uppi hraðanum í 60 mínútur. Við verðum að vera fljótir að gíra okkur inn á mjög breyttan andstæðing,“ sagði Aron þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli á hóteli landsliðsins í Búdapest í dag.

„Við erum að búa okkur undir allt öðruvísi leik en í gær en að sama skapi mjög erfiða viðureign. Á því leikur enginn vafi,“ sagði Aron. „ Mér finnst við eiga eitt og annað inni svo sem eins og hraðaupphlaupin.“


Aron sagði sigurinn og leikinn í gær hafa verið gott upphaf á mótinu. Hinsvegar megi ekki gleyma því að góð byrjun á móti dugi ekki ein og sér.

„Við gerðum örugglega 90% af okkar starfi rétt. Framlag fékkst frá öllum leikmönnum. Sóknarleikurinn og varnarleikurinn var góður þótt við hefðum mátt keyra meira upp hraðann í síðari hálfleik. Eins eigum við inni í hraðaupphlaupin og seinni bylgjuna.


Heilt yfir þá spilaðist leikurinn nokkuð vel. Við leystum það sem portúgalska liðið lagði fyrir okkur. Það var ekkert sem kom okkur á óvart í þeirra leik. Þetta var nokkuð “smooth sailing,“ sagði Aron glaður í bragði.


„Við getum ennþá dottið út úr keppninni. Þess vegna er full einbeiting á leikinn við Holland á morgun. Í þeirri viðureign ætlum við okkur sigur því hann kemur okkur í góða stöðu en það svo lítill tími á milli leikja að ekki gefst tími til þess að líta um öxl. Ljóst er að sigurinn í gær gefur okkur ekkert neitt ef við ætlum að fara fram úr okkur. Næst er að leggja allt undir til að vinna Hollendinga,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -