- Auglýsing -
- Auglýsing -

Grétar Ari byrjar með stórleik – Dinart ráðinn til félagsins

Grétar Ari Guðjónsson markvörður Nice. Mynd/Cavigal Nice Handball
- Auglýsing -

Grétar Ari Guðjónsson átti stórleik og stóran þátt í að lið hans, Cavigal Nice, vann upphafsleik sinn í frönsku B-deildinni í handknattleik í gærkvöld. Nice lagði þá Cherbourg, 29:26, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:13.


Grétar Ari, sem er að hefja sitt annað tímabil hjá Cavigal Nice, varði 14 skot og var með 35% hlutfallsmarkvörslu. Segja má að frammistaða hans hafi skilið liðin að þegar upp var staðið en markverðir Cherbourg náðu sér alls ekki á strik.


Í samtali við handbolta.is í gærmorgun sagði Grétar Ari að undirbúningur fyrir leiktíðina hafi verið afar góður. Miklar breytingar hafi orðið á leikmannahópnum á milli tímabila. Þar af leiðandi væri örlítil óvissa í kringum fyrstu leikina meðan menn væru að stilla strengina. Undirbúningsleikirnir hafi gengið misjafnlega. „Við mætum allavega bara með kassann úti og keyrum á þetta á fullu og skiljum allt sem við eigum eftir inná vellinum,“ sagði Grétar Ari við handbolta.is í gærmorgun. Ljóst er það hefur gengið eftir í leiknum á heimavelli í gærkvöld.

Klúbburinn er að stækka


Didier Dinart hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Cavigal Nice. Hann mun ekki koma nærri þjálfun karlaliðsins eftir því sem næst verður komist heldur fyrst og fremst stýra rekstri þess.


„Klúbburinn virðist vera að stækka. Mér skilst að það sé ýmislegt í gangi en það kemur mér svo sem ekkert mikið við. Við leikmennirnir höfum allavega ekki tekið eftir neinum stórum breytingum en líklega verður meira um það næstu ár,“ sagði Grétar Ari en Dinart er eitt þekktasta nafnið í frönskum handknattleik það sem af er liðið öldinni.


Dinart var í viðræðum við handknattleikssamband Sádi-Arabíu í sumar um að taka við þjálfun liðsins. Svo virðist sem samningar hafi ekki tekist.


Dinart er einn reyndasti handknattleiksmaður Frakka og var árum saman í hópi bestu varnarmanna heims. Eftir að leikmannaferlinum lauk var Dinart landsliðsþjálfari karla um nokkurra ára skeið en var leystur frá störfum eftir EM í janúar 2020. Undir hans stjórn urðu Frakkar heimsmeistarar á heimavelli 2017.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -