- Auglýsing -

Grótta fyrst liða til að vinna Stjörnuna

Arnar Daði Arnarsson t.v. og Maksim Akbachev stýra liði Gróttu. Mynd/Eyjólfur Garðarsson


Gróttumönnum tókst það ótrúlega má segja í kvöld og það var að verða fyrst liða til að vinna Stjörnuna í Olísdeild karla á heimavelli í kvöld, 34:32. Um leið hreppti Grótta sinn fyrsta vinning í deildinni og víst er að líkurnar voru ekki með Seltirningum fyrir viðureignina í kvöld. Stjarnan var þremur mörkum yfir í hálfleik, 18:15.


Hafi líkurnar ekki verið með Gróttu fyrir leikinn þá var upphafskaflinn heldur ekki til þess að auka mönnum bjartsýni. Stjarnan var sex mörkum yfir, 12:6, eftir 16 mínútur. Þá hætti Grótta að leik sjö á sex í sókninni. Leikmenn sneru bökum saman og börðust sem einn maður. Forskotið vannst jafnt og þétt niður.


Leikmenn Gróttu gáfu tóninn í byrjun síðari hálfleiks með því að skora tvö fyrstu mörkin á upphafsmínútunni. Þar með var munurinn kominn í eitt mark, 18:17, Stjörnunni í vil. Gróttumenn létu kné fylgja kviði.

Varnarleikur liðsins var góður og Einar Baldvin Baldvinsson var frábær í markinu. Allt lagðist á eitt með Gróttu sem komst fjórum mörkum yfir, 24:20. Stjörnumenn voru alltaf skrefi á eftir og ríflega það allan síðari hálfleik. Þeim tókst að minnka muninn í eitt mark 28:27, 31:30 og 33:32. Nær komust þeir ekki.


Dugnaður og barátta Gróttuliðsins færði því sigurinn sem var verðskuldaður. Eftir slæman upphafskafla var Grótta betri í 45 mínútur og vann verðskuldaðan og sanngjarnan sigur.


Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 7, Ólafur Brim Stefánsson 6, Ágúst Emil Grétarsson 5, Andri Þór Helgason 4, Gunnar Dan Hlynsson 4, Hannes Grimm 3, Ívar Logi Styrmisson 3, Lúðvík Thorberg Bergmann Arnkelsson 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 13, 28,9%.
Mörk Stjörnunnar: Hafþór Már Vignisson 8, Gunnar Steinn Jónsson 5, Björgvin Þór Hólmgeirsson 4, Dagur Gautason 4, Leó Snær Pétursson 3, Starri Friðriksson 3, Sverrir Eyjólfsson 3, Jón Ásgeir Eyjólfsson 1, Hrannar Bragi Eyjólfsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 7, 22,6%, Arnór Freyr Stefánsson 1, 9,1%.

Staðan í Olísdeild karla.

Handbolti.is var í Hertzhöllinni og fylgdist með framvindu leiksins í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -