- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gróttumenn voru nærri að hirða bæði stigin

Birgir Steinn Jónsson hefur verið í stóru hlutverki hjá Gróttu á leiktíðinni. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Grótta var nærri því búin að hirða bæði stigin úr viðureign sinn við FH í Olísdeild karla í handknattleik karla í Hertzhöllinni í kvöld. Benedikt Elvar Skarphéðinsson jafnaði metin, 30:30, fyrir FH þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka. Áður höfðu FH-ingar leikið vænlegri stöðu úr höndum sér en þeir voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 15:10, og virtust vera með góð tök á leiknum framan af fyrri hálfleik.


Eins og stundum áður þá gáfust leikmenn Gróttu ekki upp þótt staðan væri þröng. Þeir sóttu jafnt og þétt í sig veðrið eftir því sem á leið síðari hálfleik. Eftir að nokkur tækifæri höfðu gengið þeim úr greipum til að jafna metin þá tókst þeim það loksins. Daníel Örn Griffin jafnaði metin, 28:28, þegar tvær mínútur voru til leiksloka með marki eftir hraðaupphlaup. Á lokakaflanum komst Grótta yfir, 30:29, með öðru marki sínu í röð þegar 24 sekúndur voru til leiksloka. FH-ingar tóku leikhlé og lögðu á ráðin áður en Benedikt Elvar jafnaði metin þegar fjórar sekúndur voru eftir. Gróttumenn reyndu hvað þeir gátu til að skora sigurmarkið á síðustu sekúndunum en allt kom fyrir ekki.


Fyrstu 17 mínútur leiksins voru jafnar en síðustu liðlega tíu mínútur fyrri hálfleiks glataðist öll skynsemi úr sóknarleik Gróttu með þeim afleiðingum að FH skoraði sjö mörk í röð og fór úr því að vera marki undir, 9:8, í að vera sex mörkum yfir, 15:9.

Einar Rafn Eiðsson og Birgir Már Birgisson voru að vanda veigamiklir í sóknarleik FH. Einar Rafn skoraði til að mynda 10 mörk. Mynd/Eyjólfur Garðarsson


Gróttumenn fóru í sjö manna sóknarleik í síðari hálfleik og tóku upp agaðan leik á ný. Jafnt og þétt unnu þeir upp forskot FH-inga þar til komið var inn á lokakaflan sem áður er lýst.


Egill Magnússon meiddist á hné þegar liðlega tíu mínútur voru eftir þegar hann og Jakob Martin Ásgeirsson hlutu byltu í vörninni þegar að því er virtist hefði átt að dæma ruðning á sóknarmann Gróttu, Daníel Griffin. Boltinn gekk hinsvegar út í hornið þar sem Ágúst Emil Grétarsson féll um fætur Egils og fékk vítakasti. Egill var hinsvegar rekinn af leikvelli haltur og kom ekkert meira við sögu. Hann var kominn með stóran kælipoka við annað hnéð þegar hann gekk inn í búningsklefa að leik loknum.


Mörk Gróttu: Andri Þór Helgason 9/7, Birgir Steinn Jónsso 8, Gunnar Dan Hlynsson 4, Daníel Örn Griffin 4, Ólafur Brim Stefánsson 2, Lúðvík Thorberg Bergmann Arnkelsson 1, Hannes Grimm 1, Ágúst Emil Grétarsson 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 11, 28,2% – Daníel Andri Valtýsson 1, 50%.
Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 10/4, Leonharð Þorgeir Harðarson 4, Benedikt Elvar Skarphéðinsson 3, Birgir Már Birgisson 3, Egill Magnússon 2, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Einar Örn Sindrason 1.
Varin skot: Phil Döhler 10, 26,3% – Birkir Fannar Bragason 1/1, 33,3%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan í Olísdeild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -