Guðjón Valur og lærisveinar sitja eftir með sárt ennið

Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari Gummersbach. Mynd/Nastasja Kleinjung / VfL Gummersbach

Guðjón Valur Sigurðsson og lærisveinar hans í Gummersbach sitja eftir með sárt ennið í þriðja sæti þýsku 2. deildarinnar þrátt fyrir sigur í lokaumferðinni í dag. Liðið fer ekki upp í efstu deild heldur kemur það í hlut HSV Hamburg og N-Lübbecke að hafna í tveimur efstu sætunum og leika í efstu deild á næstu leiktíð.

Lokastaðan er neðst í greininni.


Gummersbach lauk keppni í þriðja sæti með 55 stig eftir 36 leiki, stigi á eftir HSV Hamburg og N-Lübbecke sem eru í tveimur efstu sætunum.
Gummersbach-liðið gerði það sem það gat í lokaumferðinni og lagði Grosswallstadt á útivelli, 33:27. Raul Santos lék sinn síðasta leik fyrir liðið og skoraði 10 mörk en Hákon Daði Styrmisson leysir hann af hólmi á næsta keppnistímabili. Elliði Snær Viðarsson skoraði úr báðum markskotum sínum í leiknum og var einu sinni vísað af leikvelli.


Sveinbjörn Pétursson varði sjö skot og lék annan hálfleikinn í marki Aue sem vann stórsigur á Wilhelmshavener, 36:23. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði eitt mark fyrir Aue en átti níu stoðsendingar. Wilhelmshavener féll þar með úr deildinni ásamt Konstanz og Fürstenfeldbruck en Emsdetten tókst að hanga á sætinu eins og hundur á roði með sigri á Lübeck-Schwartau, 32:27, á útivelli. Anton Rúnarsson gengur til liðs við Emsdetten í sumar.


EHV Aue lauk þar með keppni í 5. sæti sem er einn besti árangur í sögu félagsins en Rúnar Sigtryggsson stýrði liðinu í forföllum lengst af keppnistímabilsins.


Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður og verðandi liðsmaður Hauka, kvaddi Bietigheim með stórleik gegn gömlum samherjum í HSV Hamburg. Aron varði 16 skot og var 39% hlutfallsmarkvörslu þegar Bietigheim vann Hamborgarliðið á heimavelli, 28:27.


Bietigheim hafnaði í áttunda sæti sem verður að teljast bærilegt miðið við þá erfiðleika sem verið hafa í herbúðum liðsins lengst af en kórónuveiran setti stórt strik í reikninginn hjá liðinu eins og hjá EHV Aue.
Lokastaðan:

Standings provided by SofaScore LiveScore


- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -