- Auglýsing -
- Auglýsing -

Guðmundur tekur við af Jakobi

Guðmundur Pedersen stýrir kvennaliði FH út leiktíðina. Mynd/FH
- Auglýsing -

Guðmundur Pedersen hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs FH í handknattleik en það leikur í Olísdeildinni. Guðmundur tekur við starfinu af Jakobi Lárussyni sem sagði starfi sínu lausu í gær. Guðmundur mun stýra liðinu út leiktíðina.


Guðmundur er öllum hnútum kunnugur í Kaplakrika og er fjórði leikjahæsti leikmaður félagsins með 534 meistaraflokksleiki að baki. Hann er mjög reynslumikill þjálfari hjá félaginu og hefur getið sér gott orð, hvoru tveggja sem yngri flokka þjálfari og þjálfari meistaraflokks kvenna fyrir nokkrum árum, segir m.a. í tilkynningu á Facebook-síðu handknattleiksdeildar FH.

„FH-ingar höfðu samband við mig í gær og eftir mjög stutta umhugsun ákvað ég að taka slaginn,” er haft eftir Guðmundi tilkynningunni. „Mér rann í raun blóðið til skyldunnar að hjálpa félaginu á þessum tímapunkti,” segir Guðmundur ennfremur.

„Það var frábært að Gummi var klár í verkefnið með nánast engum fyrirvara,” segir Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH í tilkynningunni. „Gummi þekkir auðvitað hverja fjöl í Krikanum, og er mikill félagsmaður og drengur góður. Hann á eftir að klára verkefnið með miklum sóma,” segir Ásgeir Jónsson.

Guðmundar bíður ærið verkefni. FH rekur lestina í Olísdeildinni án stiga eftir sex leiki.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -