- Auglýsing -
- Auglýsing -

Halldór Jóhann ráðinn landsliðsþjálfari Barein

Halldór Jóhann Sigfússon stýrir landsliði Barein á HM í Egyptalandi. Mynd/Twittersíða Bahrain Handball
- Auglýsing -

Halldór Jóhann Sigfússon hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Barein í handknattleik karla. Hann mun stýra landsliðinu fram yfir HM sem fram fer í Egyptalandi í janúar. Eftir það verður framhaldið metið en Barein hefur öðlast keppnisrétt á Ólympíuleikunum sem fram eiga fara næsta sumar.

Samhliða starfi sínu í Barein verður Halldór Jóhann áfram þjálfari karlaliðs Selfoss og mun að óbreyttu koma þar inn af fullum krafti aftur 1. febrúar. Hann verður þriðji Íslendingurinn til þess að stýra landsliði Barein en áður hafa Aron Kristjánsson og Guðmundur Þórður Guðmundsson verið við stjórnvölinn.

Fer til Barein á mánudaginn

„Ég fer út á mánudaginn og hef þá undirbúningi fyrir HM. Kem heim í nokkra daga í kringum jólin en fer síðan út aftur,“ sagði Halldór Jóhann þegar handbolti.is heyrði í honum fyrir stundu.


Halldór Jóhann segir ráðninguna hafa átt sér skamman aðdraganda. Þjóðverjinn Michael Roth, sem tók við starfinu af Aron í ágúst hætti á dögunum eins og handbolti.is sagði frá í fyrrakvöld. Forráðamenn Handknattleikssambands Barein hafi þá leitað til sín á mánudaginn og samningur verið í höfn fáeinum dögum síðar.

Þekkir vel til leikmanna

„Ég þekki ágætlega til bæði til leikmanna og eins þeirra sem stjórna málum eftir að ég var með 20 ára landslið Barein í skamman tíma og vann með Aroni í kringum A-landsliðið. Þar af leiðandi er auðveldara fyrir mig að koma inn í þetta umhverfi en þá sem ekki þekkja til, ekki síst þegar um tímabundið verkefni er að ræða og skammt í stórmót,“ sagði Halldór Jóhann sem lítur á þetta sem tímabundið verkefni sem komi ekki niður á liði Selfoss sem hann tók við þjálfun á í sumar. „Ég hef mjög góða menn með mér á Selfossi sem sjá um málin meðan ég verð í burtu, Örn, Rúnar og Jónda.“

Vildu ekki leggja stein í götuna

„Forráðamenn Handknattleiksdeildar Selfoss tóku vel í málaleitan mína að mega taka að mér þetta tímabundna verkefni með skömmum fyrirvara. Þeir vildu ekki leggja stein í götu mína, ekki síst í ljósi aðstæðna hér heima. Ef eðlilegt ástand ríkti hér á landi og handboltinn væri á fullri ferð þá hefði ég afþakkað tilboðið frá Barein.“


Hvað taki við eftir 1. febrúar sagði Halldór að ekki hafi verið rætt um það milli sín og Bareinbúa. Næsta sumar stendur til að halda Ólympíuleika þar sem Barein hefur þegar tryggt sér keppninsrétt. Hvort Halldór Jóhann stendur í stafni þegar að leikunum kemur sagði hann ekki hafi verið rætt.

Taka stöðuna eftir HM

„Eins og málum er háttað þá er ég samningsbundinn Selfoss, fyrst og síðast. Ég er bara að fara í þetta tveggja mánaða verkefni í kringum HM. Að því loknum tökum við púlsinn og förum yfir hvort vilji og áhugi kunni að vera fyrir áframhaldandi samstarfi. Sjáum til hver reynslan verður.“

Stórt tækifæri og mikill heiður

„Ég lít bara á þetta sem frábært tækifæri fyrir mig til að öðlast enn meiri reynslu. Það er ekki á hverjum degi sem maður á þess kost að vera þjálfari liðs á heimsmeistaramóti. Það felst í því heiður að Bareinar hafi leitað til mín og er sönnun þess að þegar mér var sagt upp störfum hjá þeim með U18 og U20 ára landsliðin þá var það ekki vegna þess að þeir væru óánægðir með það sem ég hafði fram að færa á handboltavellinum heldur af öðrum ástæðum sem sneru að peningamálum eins og kom fram á sínum tíma,“ segir Halldór sem gerir sér vel grein fyrir út í hvað hann er að fara. Hann þekkir vel helstu persónur og leikendur, utan vallar sem innan.

Heimsmeistararnir í fyrsta leik

„Það er eftirvænting í manni að taka við þessu starfi og margir óvissuþættir og þess vegna er gott að fara út snemma og meta stöðuna. En HM er framundan og verði af mótinu þá eigum við leik við heimsmeistara Danmerkur í fyrstu umferð.


Fyrst og fremst hefði þetta aldrei orðið að veruleika nema vegna þess að forráðamenn Selfoss voru jákvæðir frá fyrsta degi að gefa mér þetta tækifæri sem er mjög faglegt og gott hjá þeim,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, nýráðinn landsliðsþjálfari Barein í samtali við handbolta.is.

Auk Danmerkur verður Barein í riðli með Argentínu og Kongó á HM í Egyptalandi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -