Handvömm kostar sex stig á endasprettinum

Mynd/EPA

Danska úrvalsdeildarliðið Bjerringbro/Silkeborg hefur verið dæmt til að missa sex stig í úrvalsdeildinni í karlaflokki vegna þess að það tefldi fram ólöglegum leikmanni í þremur sigurleikjum.


Mál er þannig með vexti að áður en keppnistímabilið hófst í haust þá gerðu Bjerringbro/Silkeborg og Lemvig með sér samning um að síðarnefnda liðið leigði línumanninn Sasser Valde Helveg Sonn frá Bjerringbro/Silkeborg. Stóð til að hann yrði hjá Lemvig út þetta keppnistímabil.


Um áramótin var Helveg Sonn kallaður til baka úr leigu þar sem Bjerringbro/Silkeborg sá fram á að hafa not fyrir hann. Hinsvegar gleymdist að tilkynna danska handknattleikssambandinu að leigusamningurinn væri úr gildi fallinn og Helveg Sonn væri orðinn leikmaður Bjerringbro/Silkeborg á nýjan leik.


Skiljanlega eru forráðamenn Bjerringbro/Silkeborg vonsviknir yfir því að hafa tapað stigunum sex enda þótt liðið sé öruggt um sæti í úrslitakeppni efstu liða deildarinnar. Endanleg röð í deildarkeppninni hefur talsvert að segja en úrslitakeppnin er leikin í upphafi í tveimur riðlum og taka þau lið sem best standa að vígi eftir deildarkeppnina stig með sér áfram í riðlakeppnina.


Ekki er útilokað að Bjerringbro/Silkeborg fari með málið áfram fyrir áfrýjunardómstól danska handknattleikssambandsins.


Eitt þeirra liða sem nú fær tvö stig upp í hendurnar ef málið endar á þennan veg er Kolding, sem Ágúst Elí Björgvinsson landsliðsmarkvörður leikur með. Stigin fara langt með tryggja liðinu sæti í úrslitakeppninni. Kolding stendur nokkuð þokkalega vígi fyrir en vissulega enn betur með þessi tvö aukastig.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -