Haukar hafa samið við tvo Króata

Ena Car og Lara Židek, nýir leikmenn í herbúðum Hauka. Mynd/Haukar

Haukar hafa samið við tvær króatískar handknattleikskonur, Ena Car og Lara Židek, um að leika með liði félagsins næstu tvö árin í Olísdeildinni. Báðar spiluðu þær með ŽRK Koka Varaždin í króatísku deildinni á síðasta tímabili en liðið hafnaði í 8. sæti af 14 liðum deildarinnar.


Í tilkynningu frá handknattleiksdeild Hauka segir m.a. að Car sé 23 ára vinstri skytta sem getur líka leyst hægri skyttustöðuna ásamt því að vera góður varnarmaður. Hún hefur verið ein af markahæstu leikmönnum króatísku deildarinnar síðustu tímabil. Á síðasta tímabili skoraði Car 102 mörk í 24 leikjum. Car á að baki leiki fyrir yngri landslið Króatíu.

Önnur hefur leikið á Selfossi

Židek er 25 ára leikstjórnandi sem getur leyst allar stöðurnar fyrir utan. Židek er ekki ókunnug Íslandi. Hún lék með Selfossi í Grill66 deild kvenna tímabilið 2020-2021. Meðan á verunni á Selfossi stóð var Židek fyrir því óláni að slíta krossband um mitt tímabilið. Hún kom svo sterk til baka í byrjun þessa árs með liði ŽRK Koka Varaždin og lét mikið að sín taka. Židek hefur áður leikið með liðum í Noregi og kemur hún því til liðs við Hauka með góða reynslu.


„Það er ánægjuefni að fá Enu og Löru til liðs við Hauka en þær munu styrkja liðið til muna. Þetta eru leikmenn á þeim aldri sem passa vel inn í hópinn og eiga þær án efa eftir að aðlagast liðinu og Íslandi fljótt og vel,“ er haft eftir Ragnari Hermannssyni þjálfara Hauka í tilkynningu.


Židek og Car eru væntanlegar til Íslands þegar halla tekur á næsta mánuð, nokkru áður en undirbúningur Haukaliðsins fyrir næsta keppnistímabil hefst.


Gert er ráð fyrir að flautað verði til leiks í Olísdeild kvenna 17. september. Haukar eiga að sækja bikarmeistara Vals heim í fyrstu umferð.


- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -