- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukar knúðu naumlega fram oddaleik

Leikmenn Hauka fagna mikilvægum sigri í KA-heimilinu í kvöld. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Haukum tókst að knýja fram oddaleik í rimmu sinni við KA í átta liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik með eins marks sigri, 23:22, í KA-heimilinu í kvöld. Oddaleikurinn verður á Ásvöllum á miðvikudagskvöldið og hefst klukkan 19.30. Eftir tvo leiki liðanna í átta liða úrslitum er staðan jöfn, 52:52.

Ólafur Ægir Ólafsson skorar eitt af fimm mörkum sínum í leiknum í kvöld. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Ólafur Ægir Ólafsson skoraði sigurmarkið tveimur mínútum fyrir leikslok. Hvorugu liði tókst að bæta við mörkum en m.a. fengu liðin hvort sína sóknina á síðustu mínútu, án árangurs.


Haukar voru marki yfir í hálfleik, 12:11, eftir að hafa náð þriggja marka forskoti, 12:9. Annars var fyrri hálfleikur í járnum.


Haukarnir byrjuðu síðari hálfleik afar vel og komust þremur mörkum yfir, 16:12. Vel studdir af troðfullu KA-heimilinu sneri KA-liðið við blaðinu og komst yfir, 19:18, og 21:19, þegar átta mínútur voru til leiksloka. Leikurinn stál í stál á lokakaflanum og eins áður sagði þá fengu liðin tækifæri til þess að bæta við mörkum á síðustu mínútu en allt kom fyrir ekki. M.a. vann KA boltann þegar 25 sekúndur voru til leiksloka. Þeim tókst ekki að nýta lokasóknina til þess að kreista út framlengingu.

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 11 mörk fyrir KA. Hér laumar hann boltanum framhja Stefáni Huldari Stefánssyni, markverði Hauka. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Mörk KA: Óðinn Þór Ríkharðsson 11/3, Arnór Ísak Haddsson 4, Patrekur Stefánsson 3, Ólafur Gústafsson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 1, Allan Norðberg 1.
Varin skot: Bruno Bernat 12, 34,3%.
Mörk Hauka: Ólafur Ægir Ólafsson 5, Darri Aronsson 3, Geir Guðmundsson 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3/1, Stefán Rafn Sigurmannsson 3/2, Guðmundur Bragi Ástþórsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 2, Atli Már Báruson 1, Heimir Óli Heimisson 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 14, 40%.

Stefán Huldar Stefánsson markvörður Hauka átti stórleik í markinu. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Handbolti.is fylgdist með leikjum kvöldsins á leikjavakt.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -