Haukur verður níundi til að taka þátt

Haukur Þrastarson leikmaður Vive Kielce. Mynd/Vive Kielce

Haukur Þrastarson verður níundi íslenski handknattleiksmaðurinn til þess að taka þátt í leikjum úrslitahelgar Meistaradeildar Evrópu ef hann verður með liði sínu Vive Kielce í leikjum helgarinnar. Sigvaldi Björn Guðjónsson sem er samningsbundinn Kielce út keppnistímabilið er meiddur og tekur því miður ekki þátt. Að meðtöldum þjálfurum hafa 11 Íslendingar tekið þátt í úrslitahelginni frá 2010 þegar það fyrirkomulag var tekið upp.


Um leið verður Haukur annar uppaldi Selfyssingurinn til þessa að taka þátt í þesssari stóru keppnishelgi. Hinn er Þórir Ólafsson sem lék einnig með Kielce vorið 2013 og hlaut bronsverðlaun.


Kielce mætir Veszprém í undanúrslitum keppninnar í Lanxess-Arena í Köln á morgun. Í hinni viðureigninni eigast við ríkjandi meistarar Barcelona og Kiel. Sigurliðin í undanúrslitum mætast í úrslitaleik á sunnudaginn og tapliðin kljást um bronsverðlaun.

Aron Pálmarsson hefur tekið þátt í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í tíu skipti. Hann fagnar hér með samherjum sínum eftir sigur Barcelona á síðasta ári. Mynd/EPA


Aron Pálmarsson er sá íslenski handknattleiksmaður sem hefur oftast tekið þátt í leikjum úrslitahelgar Meistaradeildar Evrópu, í tíu skipti frá 2010 með þremur liðum, Kiel, Veszprém og Barcelona. Aron hefur þrisvar sinnum verið í sigurliði keppninnar.


Guðjón Valur Sigurðsson hefur fimm sinnum tekið þátt í úrslitahelginni með fjórum liðum og einu sinni unnið, 2015 með Barcelona. Auk þess lék hann með Rhein-Neckar Löwen, AG Köbenhavn og Kiel í úrslitahelginni. Guðjón Valur var í liði PSG sem vann sér þátttöku í undanúrslitum vorið 2020. Vegna kórónuveirunnar var úrslitahelginni frestað til ársloka en þá var Guðjón Valur hættur að leika handknattleik sem atvinnumaður.


Arnór Atlason, Ólafur Stefánsson og Róbert Gunnarsson hafa tvisvar sinnum verið þátttakendur.


Alfreð Gíslason tók þátt úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í fimm skipti sem þjálfari Kiel og vann keppnina tvisvar. Þrír aðrir íslenskir þjálfarar hafa tekið þátt í úrslitahelginni, Dagur Sigurðsson og Guðmundur Þórður Guðmundsson sem aðalþjálfarar og Arnór Atlason sem aðstoðarþjálfari Danmerkurmeistara Aalborg á síðasta ári.


Íslendingar sem hafa tekið þátt í úrslitahelgi Meistaradeildar frá 2010:

2010 – Kiel (1. sæti): Alfreð Gíslason, þjálfari, Aron Pálmarsson, leikmaður.

2011 – Rhein-Neckar Löwen (4. sæti): Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari, Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson og Róbert Gunnarsson, leikmenn.

2012 – Kiel (1. sæti): Alfreð Gíslason, þjálfari, Aron Pálmarsson, leikmaður.
AG Köbenhavn (3. sæti): Arnór Atlason, Guðjón Valur Sigurðssson, Snorri Steinn Guðjónsson og Ólafur Stefánsson, leikmenn.
Füchse Berlin (4. sæti): Dagur Sigurðsson, þjálfari.

2013 – Vive Kielce (3. sæti): Þórir Ólafsson, leikmaður.
Kiel (4. sæti) : Alfreð Gíslason, þjálfari, Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson, leikmenn.

2014 – Flensburg (1. sæti): Ólafur Gústafsson, leikmaður.
Kiel (2. sæti): Alfreð Gíslason, þjálfari, Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson, leikmenn.

2015 – Barcelona (1. sæti): Guðjón Valur Sigurðsson.
Kiel (4. sæti): Alfreð Gíslason, þjálfari, Aron Pálmarsson, leikmaður.

2016 – Veszprém (2. sæti): Aron Pálmarsson, leikmaður.
PSG (3. sæti): Róbert Gunnarsson, leikmaður.
Kiel (4. sæti): Alfreð Gíslason, þjálfari.

2017 – Veszprém (3. sæti): Aron Pálmarsson, leikmaður.

2019 – Barcelona (3. sæti): Aron Pálmarsson, leikmaður.

2020 – Barcelona (2. sæti): Aron Pálmarsson, leikmaður.

2021 – Barcelona (1. sæti): Aron Pálmarsson, leikmaður.
Aalborg Håndbold (2. sæti): Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari.

2022 – Vive Kielce: Haukur Þrastarson, leikmaður, Sigvaldi Björn Guðjónsson (meiddur).

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -