- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hefur góða tilfinningu fyrir næstu dögum

Teitur Örn Einarsson, annar f.h. fyrir landsleik á síðasta vori. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Mér finnst útlitið vera fínt hjá okkur. Mér líður að minnsta kosti þannig þótt aðstæður séu ekki eins og best er á kosið vegna ástandsins sökum covid,“ sagði Teitur Örn Einarsson, landsliðsmaður í handknattleik og stórskytta hjá þýska liðinu Flensburg, þegar handbolti.is hitti hann að máli á hóteli íslenska landsliðsins í Búdapest í dag.


„Við höfum gert það besta sem hægt er í stöðunni. Æft mikið og vel. Þar af leiðandi hef ég góða tilfinningu fyrir næstu dögum,“ sagði Teitur Örn en fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður á föstudaginn gegn landsliði Portúgal. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.


Teitur Örn var síðast með á stórmóti fyrir þremur árum þegar íslenska landsliðið tók þátt í heimsmeistaramótinu sem fram fór í Þýskalandi og í Danmörku.

Hér þarf maður að sýna sig

„Þótt ég hafi ekki verið með á stórmóti síðan þá hef ég verið með landsliðinu öðru hverju síðan svo ég er ekki algjör nýliði. Það er bara virkilega gaman að vera í hópnum á þessu móti. Draumurinn er alltaf sá að vera með á stórmótunum. Hér þarf maður að sýna allt sem maður getur, ekkert annað er í boði,“ sagði Teitur Örn ennfremur.

Erum engir eftirbátar

Spurður um hvaða væntingar hann hafi til liðsins í heild sagði Teitur Örn ekkert óeðlilegt að fara inn í hvern leik með þá kröfu að vinna. „Vegna þess að við getum unnið. Vissulega eru öll lið andstæðinganna skipuð góðum leikmönnum. Við erum hinsvegar ekki eftirbátur þeirra að mínu mati. Þess vegna förum við inn í hvern leik til þess að vinna.“



Teitur Örn sagðist ekki þekkja eins vel til portúgalska landsliðsins og sumir aðrir í íslenska landsliðinu sem hafa tekið þátt í nokkrum leikjum á móti þeim. „Portúgalar eru með frábært handboltalið. Á því leikur enginn vafi. Ef við verðum ekki á fullum krafti frá upphafi þá lendum við í vandræðum,“ sagði Teitur ennfremur. Hann lagði áherslu á að mikilvægt sé að byrja mót á sigri. Slæmt sé að lenda strax upp að vegg.

Vel undirbúnir

„Við ætlum að leika fyrsta leikinn af fullum krafti og vera einbeittir. Þjálfarateymið hefur búið okkur vel undir leikinn og mótið þannig að þegar á hólminn verður komið er það okkar að leika af krafti og af fullri einbeitingu frá fyrstu sekúndu,“ sagði Selfyssingurinn ákveðinn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -