- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hefur lengi verið draumur

Orri Freyr Þorkelsson í sínum fyrsta landsleik í Laugardalshöll í byrjun nóvember 2020. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

„Það var mjög ánægjulegt og ég var mjög glaður að fá þær fréttir að ég kæmi inn í hópinn. Þetta hefur verið draumur hjá mér síðan ég var mjög ungur að fara á stórmót með landsliðinu,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson hornamaður Elverum við handbolta.is fyrir stundu. Orri var valinn í íslenska landsliðið í dag til þátttöku á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Ungverjalandi í næsta mánuði.

Orri Freyr sér nú fram á að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti með A-landsliðinu en á að baki þrjú mót með yngri landsliðum Íslands. „Það voru góðir tímar og reynsla,“ sagði Orri Freyr ennfremur.

Finnur til með vini sínum

Orri Freyr fékk símtal frá landsliðsþjálfaranum í gærmorgun þar sem hann var spurður hvort hann væri ekki klár í slaginn á EM. „Það kom mér jú á óvart að ég skildi koma inn en því miður lendir Hákon [Daði Styrmisson] í ótrúlega leiðinlegum meiðslum. Hákon er vinur minn og ég finn ótrúlega til með honum og vona að hans bataferli gangi sem allra best,“ sagði Orri Freyr ennfremur en hann og Hákon Daði hleyptu báðir heimdraganum síðasta sumar. Annar hélt til Noregs en hinn til Þýskalands.

Reiknar með aukahlutverki

Orri Freyr sagðist gera sér grein fyrir að hann verði væntanlega mest til taks á mótinu þar sem Bjarki Már Elísson markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar um þessar mundir sé vinstri hornamaður landsliðsins númer eitt nú eins og síðustu ár.

„Ég býst við því að vera varamaður á eftir Bjarka sem er að mínu mati einn sá besti í stöðunni í dag. En að sjálfsögðu vonast maður alltaf eftir tækifærum,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson sem á einn A-landsleik að baki, gegn Litáen í Laugardalshöll í undankeppni EM í byrjun nóvember á síðasta ári.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -