Heilsan verður alltaf í fyrsta sæti

Daníel Örn Griffin, leikmaður Gróttu. Mynd/Selfoss/SÁ

„Heilsan hjá honum í gærkvöld var betri en maður þorði að vona og miðað við hvernig þetta leit út,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu við handbolta.is í spurður um heilsufarið á Daníel Erni Griffin, leikmanni Gróttu, sem fékk afar þungt högg á hnakkann í viðureign Aftureldingar og Gróttu í Olísdeild karla á sunnudaginn. Daníel Örn var fluttur með sjúkrabíl úr Mosfellsbæ til skoðunar hjá lækni.


„Við tökum einn dag fyrir í einu og vonumst til að Daníel verði klár í næsta leik. Hann fær frí næstu daga til að jafna sig og svo tökum við stöðuna um helgina. Daníel mætti á æfingu í gær og hitti strákana. Þá leit hann betur út en ég bjóst við. Hann man eftir atvikinu og gat hlegið af lélegum bröndurum frá þjálfarateyminu. Það er allavegana jákvætt,“ sagði Arnar Daði og bætti við að læknir telji að Daníel hafi fengið vægan heilahristing.


„Við sjáum til hvernig heilsan á honum verður næstu daga. Heilsan verður alltaf í fyrsta sæti,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari karlaliðs Gróttu í handknattleik.

Daníel Örn hefur verið burðarás í dugmiklu liði Gróttu á leiktíðinni. Hann er þriðji markahæsti leikmaður liðsins með 46 mörk í 14 leikjum í Olísdeildinni.


Myndskeið af atvikinu er að finna á visir.is.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -