- Auglýsing -
- Auglýsing -

Heilsteyptur leikur hjá okkur

Einar Jónsson, þjálfari Fram. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Lalli var frábær í markinu, vörnin var einnig mjög góð. Þess utan var sóknarleikurinn líka afar góður,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, glaður í bragði eftir að lið hans lagði Stjörnuna með þriggja marka mun, 28:25, í undanúrslitum Coca Cola-bikars karla í handknattleik í kvöld.


„Við lékum á móti einu besta liði landsins og tókst að standast því snúning og vel það. Leikurinn var heilsteyptur af okkar hálfu þótt á köflum hafi við verið sjálfum okkur verstir með því að fá á okkur klaufalegar brottvísanir og kasta boltanum frá okkur í tómri dellu. Þessi atriði hafa loðað við okkur upp á síðkastið. Það er eitthvað sem við verðum að vinna bug á,“ sagði Einar sem var að öðru leyti ánægður með sína menn og sérstaklega ánægður með að fá inn leikmann eins og Þorstein Gauta Hjálmarsson sem hefur lengi glímt við meiðsli.


„Gauti var hrikalega flottur í sínum fyrsta leik þar sem hann leikur eitthvað að ráði. Liðsheildin var annars mjög góð.“


Einar viðurkenndi að hafa ekki liðið vel fyrir leikinn en fljótlega eftir að viðureignin var hafin hafi sú líðan rokið út í veður og vind. „Mér fannst við hafa ágæt tök á leiknum þegar á leið og vinna vel úr stöðunni. Margir lögðu í púkkið.“

Mikil áskorun framundan

Einar segir viðureignin við Val á morgun vera mjög áhugavert verkefni, svo ekki sé meira sagt.

„Það verður mikil áskorun fyrir okkur. Valur er með hrikalega öflugt lið um þessar mundir. Aðalatriðið fyrir okkur er að hlaða rafhlöðurnar fyrir morgundaginn. Það gefst ekki langur tími til þess. Síðan er bara njóta þess að vera kominn í bikarúrslit. Því má ekki gleyma,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, í samtali við handbolta.is í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -