- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM-dráttur á Gizasléttunni

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Á laugardaginn verður dregið í riðla fyrir heimsmeistaramót karla í handknattleik sem fram fer í Egyptalandi 13. til 31. janúar á næsta ári. Athöfnin fer fram á Giza sléttunni, nærri pýramídunum mögnuðu í Giza, sem tilheyrir einu úthverfa Kaíró, höfuðborgar Egyptalands. Athöfnin hefst klukkan 17 og ætlar handbolti.is að fylgjast grannt með framvindunni á Giza-sléttunni.

Nafn Íslands verður í pottunum þegar dregið verður ásamt nöfnum 31 annarra  þjóða en alls verða 32 landslið með í keppninni að þessu sinni. Þátttökuliðum hefur verið fjölgað um átta en frá HM á Íslandi 1995 hafa 24 landslið reynt með sér í lokakeppni HM.

Vonandi stíga íslensku landsliðsmennirnir sem oftast sigurdans að loknum leikjum á HM2021. Mynd/EPA

Íslenska landsliðið verður í þriðja styrkleikaflokki þegar dregið verður en nokkuð er síðan Alþjóða handknattleikssambandið tilkynnti um hvernig skipað væri í styrkleikaflokka fyrir dráttinn. Þeir eru sem hér segir:

1.flokkur: Danmörk, Spánn, Króatía, Noregur, Slóvenía, Þýskaland, Portúgal, Svíþjóð.

2.flokkur: Egyptaland, Argentína, Austurríki, Ungverjaland, Túnis, Alsír, Katar, Hvíta-Rússland.

3.flokkur: Ísland, Brasilía, Úrúgvæ, Tékkland, Frakkland, Kórea, Japan, Barein.

4.flokkur: Angóla, Grænhöfðaeyjar, Marokkó, Kongó, Pólland, Rússland auk tveggja ríkja frá norður-Ameríku og Karabíaeyjum. Vegna covid19 farsóttarinnar er undankeppni ekki lokið.

Úrúgvæ og Grænhöfðaeyjar taka þátt í HM karla í fyrsta sinn.

Alfreð Gíslason er landsliðsþjálfari Þýskalands sem er í fyrsta flokknum.

Hvernig fer drátturinn fram?

Dregið verður í átta riðla með fjórum liðum í hverjum. Fyrst verður dregið úr fjórða flokki. Fyrsta lið sem dregið verður hafnar í A-riðli, næsta fer í B-riðil og síðan koll af kolli.

Eftir að öll liðin úr fjórða flokki hafa verið dregin í riðla verður sami háttur hafður á með liðin úr þriðja flokki. Í kjölfarið verða liðin úr fyrsta flokki dregin í riðla.

Þegar liðin úr fyrsta, þriðja og fjórða flokki hafa verið dregin í riðla kemur að heimamönnum, Egyptum, að velja sér riðil. Reglan er sú að heimaliðið velur sér riðil.  Þegar Egyptar hafa gert upp hug sinn kemur röðin að því að draga þau sjö lið sem eftir verða í öðrum flokki í riðlana sjö sem eftir standa.

Haukur Þrastarson verður væntanlega í eldlínunni á HM 2021 í Egyptalandi. Mynd/EPA

Keppt verður í fjórum keppnishöllum á HM 2021 í Egyptalandi, þrjár þeirra eru í Kaíró og ein í hinni fornu borg, Alexandríu við Miðjarðarhafið. Þrjár af fjórum keppnishöllum hafa verið reistar á síðustu fimm árum. Fjórða keppnishöllin og sú stærsta er þjóðarhöll Egypta í Kaíró sem rúmar tæplega 17 þúsund áhorfendur var helsti keppnisstaður HM 1999 í Egyptalandi. Höllin sú var stórlega endurbætt fyrir fáeinum árum. Sennilegt má telja að heimamenn leiki alla leikin sína þar.

Riðlakeppni mótsins stendur yfir frá 13. – 19. janúar en í henni verður leikið í átta fjögurra liða riðlum. Þrjú af fjórum liðum hvers riðils komast í milliriðlakeppni sem fram fer í fjórum sex liða riðlum frá 20. – 25. janúar.  Tvö efstu liðin í hverjum af milliriðlunum tryggja sér sæti í átta liða úrslitum 27. janúar í fjórum viðureignum. Sigurliðin halda áfram í undanúrslit tveimur dögum síðar. Loks verður leikið um verðlaun sunnudaginn 31. janúar.

Óvíst er hversu margir Íslendinga verða á leikjunum á HM 2021. Mynd/EPA

Hægt verður að fylgjast með framvindu dráttarins á eftirfarandi slóðum:

Facebook síða IHF: https://www.facebook.com/ihf.info 
Youtube síða IHF: https://www.youtube.com/user/ihftv 
Facebook síða HM 2021: https://www.facebook.com/handballegypt2021

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -