- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Hugur í okkar mönnum fyrir Frakklandsferð

- Auglýsing -

Handbolti.is heldur nú áfram að rifja upp þátttöku íslenska karlalandsliðsins í handknattleik á heimsmeistaramótum frá því fyrst var tekið þátt árið 1958. Nú er komin röðin að HM 1970 sem fram fór í Frakklandi í lok febrúar og í byrjun mars.

Fyrri upprifjanir er hægt að nálgast neðst í þessari grein.


Eins og stundum áður, og eftir, var nokkur hugur í Íslendingum fyrir heimsmeistaramótið sem fram fór í Frakklandi í lok febrúar og í byrjun mars 1970. Nokkur uppstokkun hafði orðið á landsliðshópnum á árunum á undan auk þess sem Hilmar Björnsson var ráðinn landsliðsþjálfari nokkuð óvænt árið 1968, þá aðeins 22 ára gamall. Ráðning hans var ekki óumdeild. Þótti mörgum leikmönnum landsliðsins að Hilmar væri of ungur til að taka starfið að sér. Hann lét allt slíkt tal sem vind um eyru þjóta.

HM-lið Íslands, leikir-mörk
Hjalti Einarsson, 4-0
Birgir Finnbogason, 3-0
Þorsteinn Björnsson, 5-0
Ingólfur Óskarsson, 6-8
Auðunn Óskarsson, 4-8
Sigurður Einarsson, 5-7
Sigurbergur Sigsteinsson, 6-5
Björgvin Björgvinsson, 4-3
Jón Hj. Magnússon, 4-15
Ólafur H. Jónsson, 6-8
Stefán Jónsson, 3-0
Viðar Símonarson, 6-9
Einar Magnússon, 2-6
Bjarni Jónsson, 5-4
Geir Hallsteinsson, 6-19
Ágúst Svavarsson, 3-4
Landsliðsþjálfari:
Hilmar Björnsson

Íslendingar slógu Austurríkismenn út í undankeppninni og mættu galvaskir til leiks með nokkuð ungt lið leikmanna sem áttu eftir að setja sterkan svip á íslenska handknattleik næstu árin á eftir.
Fyrsti leikur Íslands í mótinu var gegn Ungverjum en landslið þeirra var einnig síðasti andstæðingur Íslands á mótinu 1964 þegar íslenska liðið var síðast með. Ungverjar voru miklu betri og unnu stórsigur, 19:9. Ingólfur Óskarsson var markahæstur í íslenska liðinu með þrjú mörk.

Næst tapaði íslenska liðið fyrir Dönum með sex marka mun, 19:13, og þá var Geir Hallsteinsson markahæstur með fimm mörk.
Brúnin léttist aðeins á mönnum við sigur á Pólverjum, 21:18, í Metz 1. mars og aftur var Geir markahæstur með fimm mörk og Jón Hjaltalín Magnússonar var næstur með fjögur mörk. Sigurinn á Pólverjum var skammgóður vermir. Þar á eftir tapaði íslenska liðið fyrir Japan, 20:19, í leik þar sem hermt er að leikmenn íslenska liðsins hafi verið nokkuð sigurvissir þegar þeir gengu til leiks. Að minnsta kosti náðu þeir sér ekki á strik fyrr en undir lokin þegar alvaran blasti við þeim. Þeir skoruðu fimm síðustu mörk leiksins. Það dugði ekki til og eins marks tap var staðreynd. Einar Magnússon skoraði flest mörk íslenska liðsins, fimm, og Ingólfur var næstur með fjögur.

Næst tapaði Ísland fyrir Sovétríkjunum, 19:15, þar sem Jón Hjaltalín var markahæstur með fjögur mörk. Í kjölfarið lék Ísland um 11. sæti mótsins við heimamenn, Frakka og fagnaði sigri, 19:17. Geir og Jón Hjaltalín skoruðu fjögur mörk hvor en Sigurður Einarsson og Viðar Símonarson skoruðu þrjú hvor.

„Gönguhandknattleikur gildir ekki lengur“


Nokkrar umræður voru um árangur íslenska liðsins við heimkomu þess en hann þótti slakur. Framarinn Sigurður Einarsson sagði m.a. í samtali við Morgunblaðið að grunnþjálfun íslenskra handknattleiksmanna væri ábótavant. Strax í yngri flokkum yrði að leggja meiri áherslu á að ná upp meiri hraða og æfa sendingar og grip. „Keppnin í Frakklandi hefur opnað augu okkar fyrir því að gönguhandknattleikur gildir ekki lengur,“ sagði línumaðurinn Sigurður Einarsson, einn landsliðsmannanna sem léku á HM í Frakklandi.


Rúmenar endurheimtu heimsmeistaratitilinn eftir sigur á Austur-Þýskalandi í úrslitaleik, 13:12. Júgóslavar kjöldrógu síðan Dani í leik um bronsið, 29:12.

Áður hefur verið rifjuð upp þátttaka Íslands á HM 1958, 1961 og 1964 sem hægt er að nálgast með því að smella á ártölin.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -