- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Stórviðburður hverjar sem aðstæður eru

Halldór Jóhann Sigfússon stýrir landsliði Barein á HM í Egyptalandi. Mynd/Twittersíða Bahrain Handball
- Auglýsing -

Halldór Jóhann Sigfússon tók við þjálfun landsliðs Barein í lok nóvember og stýrir því fram yfir heimsmeistaramótið í Egyptalandi. Hann er væntanlegur til Kaíró á morgun með sveit sína til Kaíró á morgun fimmtudag en fyrsti leikur Bareina undir stjórn Halldórs Jóhanns verður á föstudagskvöld gegn heimsmeisturum Dana. Óhætt er að segja að þar ráðist Bareinar ekki á garðinn þar sem hann lægstur. Einnig eru landslið Argentínu og Kongó í riðlinum.


„Fjórir leikmenn úr byrjunaliðinu hafa verið meiddir og fyrir vikið vorum við með fleiri leikmenn á æfingum lengi vel en upphaflega stóð til. Um skeið voru sex á meiðslalistanum. Þessir fjórir byrjuðu að æfa af krafti aftur á dögnum svo það er útlit fyrir að ég geti farið með þá 20 leikmenn til Egyptalands,“ sagði Halldór Jóhann þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans.


Fyrir utan meiðsli segir Halldór Jóhann sömu sögu og margir aðrar þjálfarar í aðdraganda HM og það er skortur á æfingaleikjum. „Við áttum að leika við Túnis og Alsír hér í Barein í byrjun árs en ekkert varð úr. Túnisbúar hættu við vegna veirunnar og Alsírbúar fengu ekkert hentugt flug á þeim tíma sem þeir áttu að koma. Það hefði tekið þá 36 tíma að koma hingað svo koma þeirra datt upp fyrir. Þess utan áttum við að vera á æfingamóti í Póllandi á milli hátíðanna en vegna vandræða með vegabréfsáritun og takmarkanna út af veirunni þá rann sú ferð út í sandinn,“ sagði Halldór Jóhann ennfremur.

Engir æfingaleikir

„Ég er fara á HM án þess að hafa leikið æfingaleik fyrir mót sem er mjög slæmt fyrir liðið og einnig mig sjálfan vegna þess að ég hefði vilja reyna eitt og annað með þær áherslu sem ég vil leggja í leikinn. Sem betur fer þá mætum við Dönum í fyrsta leik en ekki Argentínu eða Kongó. Við verðum að líta á leikinn við Dani sem þá viðureign sem á að koma okkur inn í mótið án þess að maður tefli fram öllum trompunum,“ sagði Halldór Jóhann sem líst ekki vel á ástandið í aðdraganda mótsins.

Bestir árangurinn á HM 2019

Barein tekur nú þátt í HM í fjórða sinn. Á HM 2011 og 2017 hafnaði lið Bareina í 23. sæti af 24 þátttökuliðum en síðan varð það í 20. sæti undir stjórn Arons Kristjánssonar sem stýrði liðinu þangað til á síðasta sumri. Undir stjórn Arons tryggði Barein sé þátttökurétt á Ólympíuleikunum sem fram áttu að fara í Japan á síðastliðnu sumri. Vonir standa til þess að leikarnir fari fram í sumar.

Raunsær á væntingar

Halldór Jóhann segist vera brattur þótt ljóst sé að landslið Barein sé að fara í nokkra óvissuferð á HM að þessu sinni. „Ég er raunsær en víst er að ég hefði viljað að liðið í heild væri betur undir mótið búið. Sérstaklega mættu fjórmenningarnir sem áður er getið vera í betri æfingu þar sem um lykilmenn er að ræða. Svo er einn vandinn sá að bestu sóknarmennirnir eru slakir varnarmenn og þeir sem er sterkari í varnarleiknum eru ekki öflugir þegar að sóknarleiknum kemur.

Ég er afar spenntur og hef reynt að búa mig og liðið eins vel undir mótið og kostur er. Ég hef orðið mér út um upptökur af leikjum andstæðinganna. Það er ljóst að Kongó-liðið er sýnd veiði en ekki gefin. Hver einasti leikur verður okkur erfiður. Argentína varð Suður-Ameríkumeistari síðast þegar keppt var og með flott lið. Mér finnst sem við getum mælt okkur við þá. Vissulega þarf margt að ganga upp til þess að við vinnum Argentínumenn en vonandi náum við að leika á okkar helstu styrkleikum í þeirri viðureign,“ sagði Halldór Jóhann.

Stoltur af liðinu

Halldór Jóhann er leið á sitt fyrsta stórmót sem landsliðsþjálfari. Hann segist vera þakklátur fyrir að fá þetta tækifæri og fer stoltur af stað með sína sveit.

„Við ætlum að gera okkur besta, svo sannarlega. Ef þetta verður eina tækifærið sem ég fæ á lífsleiðinni til að fara sem þjálfari með lið á HM í handbolta þá verður það þannig. Þetta er stórviðburður hverjar sem aðstæður eru. Ég ætla að gera mitt besta á mótinu eins og ég tel mig hafa gert að undanförnu við undirbúninginn við þessar aðstæður. Ég mun örugglega gera eitthvað af mistökum. Vonandi koma þau sem minnst niður á liðinu. Um leið vona ég að mér takist að gera margt gott. Ég öðlast reynslu sem mun nýtast mér fyrir framhaldið sem þjálfari,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, landsliðsþjálfari Barein í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -